3.2.2022 11:38

Uppákoma þingmanns og umboðsmaður

Virðing alþingis mælist því miður ekki mikil en að forseti þingsins sýni þingmönnum virðingarleysi með að samþykkja lausnarbeiðni ríkisendurskoðanda er af og frá.

Ætla mætti að umboðsmaður alþingis telji ríkisendurskoðanda hafa verið fluttan nauðugan viljugan úr embætti sínu í stól ráðuneytisstjóra í nýstofnuðu menningar- og viðskiptaráðuneyti 1. febrúar 2021. Umboðsmaður neytti frumkvæðisréttar og óskaði eftir skýringu á flutningnum. Litið er á slík tilmæli sem gagnrýni í sjálfu sér.

Jóhann Páll Jóhannsson, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á þingi 1. febrúar „óboðlegt að láta eins og forseti alþingis [hefði] eitthvert húsbóndavald yfir ríkisendurskoðanda“ þar sem hann féllst á ósk ríkisendurskoðanda um afsögn. Taldi þingmaðurinn að ríkisendurskoðanda yrði „ekki vikið úr starfi nema með samþykki“ þingsins. „Hér hefur verið sett mjög hættulegt fordæmi og ég mótmæli þessu,“ sagði þingmaðurinn þingmönnum væri sýnt „virðingarleysi“ þeir gætu „ekki setið þegjandi undir þessu“.

Virðing alþingis mælist því miður ekki mikil en að forseti þingsins sýni þingmönnum virðingarleysi með að samþykkja lausnarbeiðni ríkisendurskoðanda er af og frá.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi óskaði eftir lausn frá embætti og samþykkti Birgir Ármannsson þingforseti óskina. Hann hefur skýrt umboð í lögum til að taka ákvörðun í málum sem þessum.

Í upphafi þingfundar 25. febrúar 2021 skýrði Steingrímur J. Sigfússon frá því að 18. febrúar hefði borist bréf frá umboðsmanni alþingis, Tryggva Gunnarssyni, um lausn frá embætti frá og með 1. maí 2021. Fallist hefði verið á beiðni hans og bréf Tryggva kynnt forsætisnefnd þingsins enda ætti hún að undirbúa kjör nýs umboðsmanns.

Svo virðist sem Jóhann Páll Jóhannsson telji að þessi tilmæli Tryggva hefði átt að bera undir þingið til atkvæðagreiðslu úr því að hann segir að þingið verði að samþykkja ósk Skúla Eggerts um starfslok. Þetta er auðvitað fráleitt. Þótt alþingi kjósi umboðsmann og ríkisendurskoðanda eiga þeir það ekki undir samþykki þingheims hvort þeir ákveða að biðjast lausnar eða ekki.

AlthingishusidVið afsögn sína sagði Tryggvi að hann ætlaði nú að „huga að því sérstaka áhugamáli mínu að auka fræðslu fyrir starfsmenn stjórnsýslunnar, bæði ríkis og sveitarfélaga, um starfshætti í stjórnsýslunni og þær reglur sem gilda um meðferð mála þar og þjónustu í þágu borgaranna“. Þetta er honum að sjálfsögðu frjálst eins og Skúla Eggerti er frjálst að snúa sér að stjórn ráðuneytis menningar- og viðskiptamála. Hafi ekki verið staðið rétt að ráðningu hans í það embætti snýr það að viðkomandi ráðherra, Lilju D. Alfreðsdóttur, og hlýtur hún að svara spurningu Skúla Magnússonar, umboðsmanns alþingis, um það efni.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (3. febr.) er talað um „óþarft inngrip“ Skúla í þetta mál. Umboðsmaður hafi ekki náð „að stilla sig [...] eftir að þingmaður [Jóhann Páll Jóhannsson] stóð fyrir vandræðalegri uppákomu á þingi“.

Af ræðu Jóhanns Páls mátti ráða að forseti þingsins hefði fallist á flutning Skúla Eggerts í nýtt embætti og vikið honum úr starfi. Allt var það orðum aukið og úr lausu lofti gripið. Að umboðsmaður alþingis taki þátt í slíkum leik óreynds þingmanns er ólíklegt en veikir inngrip hans og málatilbúnað.