23.11.2023 11:26

Undrun vegna stöðugjaldabrota

Kvarta má vegna „álagningar stöðubrotagjalds“ til umboðsmanns alþingis. Í umferðarlögum er grátt svæði „svipaðir staðir“ tilgreint með gangstéttum, gangstígum og umferðareyjum.

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrv. alþingismaður, segir á Facebook í dag (23. nóv.) að hann hafi í flýti lagt í autt bílastæði á Skólavörðustígnum. Þegar hann kom til baka lá miði undir rúðuþurrkunni á bílnum. Gefum Guðmundi Andra orðið:

„Á daginn kom að bíllinn sneri öfugt í stæðinu þarna á Skólavörðustígnum og sektin reyndist vera 10.000 krónur. Segi og skrifa. Fyrir bíl sem snýr öfugt í stæði þegar nálgast kvöld. Það var eins og ég hefði vanhelgað kirkjurými, haft í frammi háreysti í jólamessunni, eyðilagt listaverk; gert eitthvað frámunalegt og óheyrilegt sem þyrfti harða og eftirminnilega refsingu ... 10.000 krónur! Hver yrði sektin ef ég gerði nú raunverulega eitthvað af mér?“

Fjölmargir gera athugasemd við færsluna og benda á að Guðmundur Andri hafi gerst brotlegur, bíll megi ekki snúa öfugt í stæði. Hann viðurkennir brotið en honum blöskrar fjárhæðin.

Undrun hans er skiljanleg. Hins ber þó að minnast að bílastæðagjöld við Skólavörðustíg og annars staðar á gjaldsvæði 1 hafa hækkað auk þess sem greiðsluskylda nær nú til klukkan 21.00. Þar kostar 1845 kr. að leggja í þrjá tíma, sé það gert með aðstoð EasyPark.

Kvarta má vegna „álagningar stöðubrotagjalds“ til umboðsmanns alþingis. Í umferðarlögum er grátt svæði „svipaðir staðir“ tilgreint með gangstéttum, gangstígum og umferðareyjum þar sem bannað er að leggja. Sé lagt á þessum stöðum kallar það á „stöðubrotagjald“, það er 10.000 kr. sekt.

IMG_6687-2-

Umboðsmaður alþingis telur réttmætt að sekta fyrir að leggja bíl á svæðinu milli hjólastígs og akbrautar við Suðurandsbraut vegna þess að merkt bílastæði eru við Herkastalann, til hægri á myndinni.  Það sé hluti af skýringu á „svipuðum svæðum“ samkv. umferarlögum að merkt bílastæði séu nærri þeim.

Að norðanverðu við Suðurlandsbraut andstætt nýja Herkastalanum, þar sem Hjálpræðisherinn rekur vinsælan veitingastað, var og er kannski enn „svipaður staður“, milli hjólastígs og akbrautar sem gestir í Herkastalanum nýta eða nýttu gjarnan þegar öll stæði við hann (þau eru ekki mörg) voru full.

Þarna voru bílastæðaverðir á ferð og létu sektarmiða undir rúðuþurrkur á bílum. Þegar fundið var að þessu við bílastæðasjóð borgarinnar var fyrsta svarið að lagt hefði verið á umferðareyju, síðar breyttist afstaða sjóðsins og vísaði hann til „svipaðra staða“. Umboðsmaður taldi að svar starfsmanns bílastæðasjóðs um umferðareyju hefði ekki „verið formleg ákvörðun um grundvöll gjaldsins“.

Kvörtuninni til umboðsmanns alþingis fylgdu ljósmyndir af umræddu svæði. Umboðsmaður segir að þær sýni að brotlegu bifreiðinni hafi verið lagt á svæði sem liggi milli akbrautar og hjólastígs. Síðan segir: „Þá liggur fyrir að við hinn enda akbrautarinnar við húsnæði Hjálpræðishersins er afmarkað bílastæði. Verður því ekki séð að umbúnaður og frágangur við umrætt svæði gefi til kynna að það sé ætlað fyrir umferð og stöðu bifreiða.“ Taldi umboðsmaður sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við „álagningu stöðugjaldabrotsins“.

Bifreiðinni var lagt á opið svæði milli akbrautar og hjólastígs af því að ekkert bílastæði var laust við Herkastalann. Umboðsmaður segir hins vegar að „afmarkað bílastæði“ við Herkastalann valdi því að réttmætt sé að skilgreina opna svæðið sem „svipaðan stað“ og gangstétt, gangstíg eða umferðareyju.

Opinberir aðilar geta beitt ýmsum ráðum til að ýta undir bíllausan lífsstíl. Bílastæðasjóður á bandamenn hjá umboðsmanni alþingis.