30.6.2024 11:29

Undrast íslenskt andvaraleysi

Blaðamaðurinn segir að í augum Norðmanns sé ekki aðeins skrýtið að á eyju á miðju Norður-Atlantshafi geri menn sér litla grein fyrir hættunni af stigmögnun stríðs heldur einnig fyrir almennu gildi viðbúnaðar.

Rithöfundarnir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttamaður á ríkissjónvarpinu, og Jón Kalman Stefánsson tóku í liðinni viku þátt í High Noon í Harstad í Norður-Noregi. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Festspillene i Nord-Norge og vefmiðilsins High North News.

Fimmtudaginn 27. júní birtist viðtal við þau á vefsíðu High North News. Þar segja þau að Íslendingar búi sig aldrei undir neitt ( – Vi islendinger forbereder oss aldri på noe). Þá eru þau sögð undrandi yfir hve Norðmenn séu praktískir í viðbúnaði undir að eitthvað alvarlegt kunni að gerast.

Þriðjudaginn 25. júní var rætt um viðnámsþol í norðri á High Noon. Vikið var að því að hlýnun ykist stöðugt á norðurslóðum og náttúrukraftarnir yrðu öflugri og áhrifameiri. Jafnframt ykist óróleiki í umheiminum, stríð væri háð í Evrópu.

_Bruoygard-Bjornsdottir-og-Stefansson

Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Jón Kalman Stefánsson ræða við norska stórfylkisforingjann Terje Bruøygard, yfirmann Brigade Nord. (Mynd: High North News/Astri Edvardsen)

Langt samtal við þau Sigríði og Jón Kalman snýst að verulegu leyti um bókmenntir en einnig um það sem fram kom í umræðum um ofangreint efni með þátttöku rithöfundanna þar sem hættuna á stigmögnun átaka og kjarnorkustríði bar á góma.

Blaðamaðurinn segir að það eitt hafi greinilega vakið Íslendingana til umhugsunar að koma til Harstad, til Noregs, og taka þátt í umræðum um viðnámsþol og viðbúnað.

„Því lengur sem við ræddum saman fannst mér ég vera í allt öðru tímarúmi en á Íslandi. Við höfum engan her og höfum ekki kynnst ógn frá nálægu nágrannalandi. Ég hef lesið um að bæði hér í Noregi og Danmörku sé talað um stríð, hrökkbrauð og viðbúnað en þetta virðist svo langt í burtu séð frá Íslandi,“ segir Jón Kalman. „Á sinn hátt opnar þetta augu manns fyrir því hve alvarleg staðan er fyrir marga á Norðurlöndunum; að stríðið er nálægara hér en á Íslandi. Það er vissulega ógnvænlegt en einnig forvitnilegt.“

Blaðamaðurinn segir að í augum Norðmanns sé ekki aðeins skrýtið að á eyju í miðju Norður-Atlantshafi geri menn sér litla grein fyrir hættunni af stigmögnun stríðs heldur einnig fyrir almennu gildi viðbúnaðar.

„Ég fékk sama á tilfinninguna og Jón. Það sló mig að annaðhvort erum við á Íslandi ómeðvituð, barnaleg eða heimsk þar sem við hugsum ekkert um viðbúnað. Við Íslendingar erum almennt slóðar í undirbúningi gagnvart hverju sem er,“ segir Sigríður.

Hún segir að það sé gott að hafa kynnst fólki sem íhugar málin og setur þau í stærra samhengi og nefnir þá herforingjann Terje Bruøygard, yfirmann Brigade Nord, og Gunhild Hoogensen Gjørv, prófessor í öryggismálum.

Sigríður varar við þeirri tilhneigingu að ýta öllu til hliðar sem sé ógnandi og geti valdið okkur ótta. Hún segist kynnast því sem blaðamaður að hjá íslenskum yfirvöldum gæti viðleitni í þá veru að ekki skuli segja eða gera neitt sem geti „hrætt fólk“ og það hafi „enga þörf fyrir að vita þetta eða hitt“. Þetta eigi til dæmis við um eldgos þar sem sjónarmið margra vísindamanna fái ekki að birtast vegna afskipta yfirvalda. Þetta eigi ekki við í lýðræðisríki.

Hér eru orð í tíma tölu og fleiri en blaðamaður High North News undrast andvaraleysi íslenskra yfirvalda gagnvart stríðshættu í okkar heimshluta.