1.12.2017 9:59

Undirrót húsnæðisvandans er í Reykjavík

Vilji ný ríkisstjórn taka húsnæðismálin föstum tökum verður hún að halda þeim við efnið sem að lausn málsins verða að koma. Þar gegnir borgarstjórn Reykjavíkur lykilhlutverki.

Nýir ráðherrar taka til starfa í stjórnarráðinu í dag. Ríkisstjórnin ætlar að láta húsnæðismál til sín taka og „beita sér fyrir umbótum í húsnæðismálum sem stuðla að eflingu og auknu jafnvægi húsnæðismarkaðar. Litið verður til ólíkra áskorana eftir landsvæðum í þessu samhengi og vanda sem stafar frá fyrri tíð. Tryggja þarf að á hverjum tíma séu aðgengilegar greiningar og tölfræði um húsnæðisframboð og -þörf út frá lýðfræðilegri þróun og skipulagsforsendum,“ segir í stjórnarsáttmálanum.

Sölvi Sturluson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka, ritar um húsnæðismál í Fréttablaðið fimmtudaginn 30. nóvember og bætist í hóp þeirra sem vekja athygli á þeirri einföldu staðreynd að mikinn hluta vandans í húsnæðismálum þjóðarinnar má rekja til rangrar stefnu þeirra sem stjórna málefnum Reykjavíkurborgar. Á meðan ekki er horfst í augu við þá staðreynd af þeim sem fara með yfirstjórn þessa málaflokks í landinu verður ekki tekið á vandanum.

Tölfræðin sýnir nú þegar að áherslan á þéttingu byggðar í Reykjavík lengir byggingartíma og hækkar fasteignaverð, flækjustigið í framkvæmd er mikið og allar ákvarðanir seinteknar.

Úr grein Sölva Sturlusonar í Fréttablaðinu.

Mosfellsbær, Garðabær og Kópavogur stækka hraðast um þessar mundir. Íbúum Hafnarfjarðar hefur einnig fjölgað. Þetta kallar á stóraukið álag á umferðarmannvirki sem tengja Reykjavík og þessa bæi. Stjórnendur Reykjavíkurborgar neita að huga að endurbótum á þessum mannvirkjum til að gera umferðaræðarnar skilvirkari. Þeir telja sig þess í stað færa um að knýja fram breytingu á ferðaháttum fólks með því að hrekja það úr einkabílnum inn í almenningsfarartæki.

Í grein sinni segir Sölvi Sturluson:

„Reykjavík er stærsta sveitarfélag landsins og gegnir þar af leiðandi mikilvægu hlutverki varðandi heilbrigði íbúðamarkaðarins. Þar hefur ekki tekist nægilega vel að auka framboð af einhverjum ástæðum. Ef síðastliðin ár eru skoðuð hjá Reykjavík þá hafa komið inn á markaðinn um 270 íbúðir á ári að meðaltali frá og með árinu 2008 samkvæmt skýrslu frá byggingafulltrúa sem er aðgengileg á vef borgarinnar. Meðalfjölgun íbúða fyrir þann tíma og aftur til 1972 er um 660 íbúðir árlega, eða tvisvar og hálfu sinni fleiri íbúðir.“

Á meðan ekki er rætt um hörmulegt ástand á íbúðamarkaðnum í Reykjavík á þann veg sem gera ber miðað við þróun undanfarinna ára er ekki tekið á lausn húsnæðisvandans á þann veg sem gera ber. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri talar jafnan um mörg þúsund glæru-íbúðir þegar um þessi mál er rætt við hann eða lætur eins og vandinn sem hann og menn hans hafa skapað eigi að leysast af öðrum.

Vilji ný ríkisstjórn taka húsnæðismálin föstum tökum verður hún að halda þeim við efnið sem að lausn málsins verða að koma. Þar gegnir borgarstjórn Reykjavíkur lykilhlutverki. Á meðan ekki er lýst á hvern hátt hún hefur brugðist og hvatt til stefnubreytingar þar er allt tal um umbætur í húsnæðismálum marklaust.