27.7.2019 10:57

Undan oki kennisetninga

Í Sovétríkjunum var skipulega unnið að því að skapa homo sovieticus, sovéska manninn, nýja manngerð.

Í ræðu sem Boris Johnson flutti þriðjudaginn 23. júlí eftir að hann var kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins lagði hann áherslu á að flokkurinn hefði í 200 ár skynjað eðlishvatir (e. insticts) bresku þjóðarinnar á þann hátt að honum hefði tekist að virkja þær öllu samfélaginu til framdráttar. Nú ætlaði hann að tryggja að stjórn eigin mála þjóðarinnar yrði í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa hennar.

Deilurnar í Bretlandi snúast einmitt um hvernig þessir stjórnarhættir séu best tryggðir, utan eðan innan Evrópusambandsins. Að því skal ekki frekar vikið hér heldur vakin athygli á að Boris Johnson þuldi ekki kennisetningar sem væri keppikefli breskra íhaldsmanna að framkvæma heldur að þeir vildu virkja krafta og vilja bresku þjóðarinnar og beina í þann farveg sem henni væri fyrir bestu. Hann nefndi nokkur dæmi: að fólk byggi í eigin húsnæði, að menn réðu sjálfsaflafé sínu og að fyrir hendi væri öryggisnet í þágu þeirra sem minnst mættu sín. Þá boðaði hann stórfjölgun lögreglumanna til að auka almennt öryggi borgaranna og varðstöðu um opinbera heilbrigðiskerfið sem yrði að efla.

PutinHöfundur þessarar myndar gefur til kynna að Vladimír Pútín sé homo sovieticus að skapi Stalíns.

Með ræðum af þessum toga draga breskir íhaldsmenn skil á milli sín og sósíalistanna í Verkamannaflokknum sem boða kennisetningar og segjast ætla að laga fólkið að þeim. Í Sovétríkjunum var skipulega unnið að því að skapa homo sovieticus, sovéska manninn, nýja manngerð sem var hafin upp til skýjanna í taumlausum en innihaldslausum áróðri um markmið þjóðfélagsbreytinganna.

Þær urðu að engu á einni kvöldstund 9. nóvember 1989 í Berlín þegar múrinn milli austurs og vesturs hrundi; ekki vegna þess að fólk vildi streyma í austur til að njóta lífsins í heimi kenningarkerfisins heldur braut það sér leið í vestur til einstaklingsfrelsisins.