Umskiptin í varnarmálum
Það er fagnaðarefni að Þórdís Kolbrún og utanríkisáðuneytið brutu þagnarmúrinn sem hér hefur ríkt af opinberri hálfu um aukinn hernaðarlegan viðbúnað í þágu varna landsins.
Undanfarin misseri hefur orðið gjörbreyting á varnarviðbúnaði í landinu með stórauknum hernaðarlegum umsvifum á öryggissvæði NATO undir stjórn utanríkisráðuneytisins á Keflavíkurflugvelli sem hefur falið Landhelgisgæslu Íslands daglega umsýslu þar.
Lýsing á þessum breytingum birtist í samantekt sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra birti 28. nóvember sl. Á annan dag jóla, 26. desember, fylgdi fréttakonan María Sigrún Hilmarsdóttir þessari samantekt eftir með myndskreyttum fréttum í ríkisútvarpinu og samtali við Jónas Gunnar Allansson, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Þar kom fram að hér eru á hverjum tíma 200–300 hermenn í sex mánuði í senn. Þá er unnið að því fyrir 13,5 milljarða króna að reisa við flugvöllinn, á kostnað Bandaríkjastjórnar, sjö geymluskála, 13.000 fermetra, yfir hreyfanlegan varaflugvöll eða „flugvöll í boxi“ eins og Jónas Gunnar orðaði það.
Myndin birtist í Morgunblaðinu í júlí 2022 og sýnir hluta öryggissvæðisins við Keflavíkurflugvöll (mynd mbl.is/RAX).
María Sigrún birti 9. desember frétt um að í Helguvík stæði til að gera 390 metra langan viðlegukant svo að stærstu herskip frá NATO-ríkjum gætu notað höfnina. Þá yrðu eldsneytistankar stækkaðir svo þeir gætu rúmað 25 milljónir lítra. NATO bæri fimm milljarða kostnað af framkvæmdinni.
Í fréttinni 9. desember ræddi María Sigrún við Þórdísi Kolbrúnu sem sagði meðal annars að á því kjörtímabili sem nú er hafið myndi „ýmislegt stórt gerast í ytri aðstæðum“ sem kynni að „hafa veruleg áhrif á íslenskt samfélag“.
Fráfarandi utanríkisráðherra skýrði þessi orð ekki nánar. Á fundum bandamanna Íslands hefur undanfarið til dæmis verið rætt um nauðsyn markvissari varna gegn fjölþátta ógnum, hvers kyns undirróðursstarfsemi, netárásum og skemmdarverkum. Þau ber hátt í fréttum núna vegna endurtekinna árása á raf- og fjarskiptastrengi á botni Eystrasaltsins.
María Sigrún Hilmarsdóttir spurði skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins:
Hvað á fólk að halda? Fólk sem horfir á eða les svona fréttir um þennan viðbúnað hér og það setur að því ugg?
Jónas Gunnar Allansson svaraði: „Það sem er mikilvægt hér er að við erum að bregðast við þessu [aukinni spennu] og ekki bara við heldur öll okkar samstarfsríki. Það er verið að auka við þessa getu sem við þurfum til að bregðast við og hún er ekki bara á varnar- og hernaðarsviðinu. Hún snýst líka um það að styrkja áfallaþol samfélagsins. [...] Við erum ekki ein. Við erum hluti af varnarsamstarfinu. Þó að við séum herlaus þá erum við ekki varnarlaus. Við erum hluti af stærri mynd, og það er það sem skiptir okkur mestu máli.“
Það er fagnaðarefni að Þórdís Kolbrún og utanríkisáðuneytið brutu þagnarmúrinn sem hér hefur ríkt af opinberri hálfu um aukinn hernaðarlegan viðbúnað í þágu varna landsins. Öll slík mannvirki verður að verja gegn skemmdarverkamönnum hér eins og annars staðar. Íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir ákvörðunum um hvernig þau ætla að tryggja viðvarandi öryggisgæslu við grunnvirki samfélagsins og ný varnarmannvirki. Eigi í raun að efla áfallaþol samfélagsins er þörf á víðtækari aðgerðum íslenskra stjórnvalda og kynningu á þeim.