29.10.2022 10:36

Umskipti í Samfylkingu

Í fréttum af Samfylkingunni er gjarnan talað um hana eins og hún keppi í einum þyngdarflokki fyrir ofan getu sína miðað við þingmannafjölda og atkvæðamagn.

Kristrún Frostadóttir (34 ára) var kjörin sjöundi formaður Samfylkingarinnar með 94% atkvæða föstudaginn 28. október 2022. Hún var ein í kjöri. Í samtali við Stöð 2 daginn sem hún var kjörin sagðist hún ætla „að breyta samfélaginu“. Fá „massa fólks“ á bak við breikkaðan flokk.

Þá sagði hún:

„Ég hef líka talað fyrir því að við setjum aðeins meiri fókus á okkar kjarnamál, tala um þessi klassísku velferðarmál sem jafnaðarmenn hafa talað fyrir, samgöngumál, kjaramál almennt. Við þurfum bara að skerpa á boðskapnum. Ég veit það fyrir víst að það er mikið af fólki með jafnaðartaug þarna úti í landinu, við þurfum bara að ná til þess.“

Það vekur athygli að henni eru samgöngumál svo ofarlega í huga þegar hún ræðir um „kjarnamál“ klassískrar jafnaðarstefnu og nauðsyn þess að ná til fólks með „jafnaðartaug þarna úti í landinu“.

1373590Kristrún Frostadóttir þakkar stuðninginn í formannskjörinu 28. október 2022 (mbl/Kristinn Magnússon).

Kristrún var fyrst kjörin á þing í kosningunum í fyrra í Reykjavíkurkjördæmi suður sem þriðji þingmaður á eftir ráðherrunum Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur (Sjálfstæðisflokki) og Svandísi Svavarsdóttur (VG). Samfylkingin fékk 13,3% atkvæða í kjördæminu en 9,9% atkvæða á landinu öllu og sex þingmenn eins og Píratar og Flokkur fólksins.

Í fréttum af Samfylkingunni er gjarnan talað um hana eins og hún keppi í einum þyngdarflokki fyrir ofan getu sína miðað við þingmannafjölda og atkvæðamagn. Í fyrirsögn á enskum fréttum á ruv.is er Samfylkingunni til dæmis lýst sem „major opposition party“. Í raun er Samfylkingin í millivigtarflokki með tveimur öðrum.

Það er að sjálfsögðu markmið Kristrúnar að styrkja flokkinn. Í stefnuræðu í dag (29. október) leggur hún línur í því efni en á leiðinni í formannssætið hefur hún kastað á haug stjórnmálasögunnar tveimur málum sem hafa sett sterkan svip á stjórnmálabaráttu Samfylkingarinnar frá árinu 2009: ESB-aðildinni og „nýju stjórnarskránni“.

Að þessi mál hverfi úr „kjarnastefnu“ flokksins og víki fyrir samgöngumálum og öðrum klassískum baráttumálum jafnaðarmanna boðar ekki aðeins áherslubreytingu heldur einnig breytingu í samstarfi þingflokka í stjórnarandstöðu. Logi Einarsson lagði kapp á að einangra Sjálfstæðisflokkinn með samstarfi við ESB-flokkanna, Pírata og Viðreisn, og með sérstakri samvinnu við Pírata í stjórnarskrármálinu.

Sagan geymir dæmi um farsælt samstarf Sjálfstæðisflokks og þeirra sem töldu sig fylgja klassískri jafnaðarstefnu áður en Samfylkingin kom til sögunnar. Fyrsti talsmaður Samfylkingarinnar kom úr Alþýðubandalaginu, þar voru einnig rætur fyrsta formanns Samfylkingarinna, annar formaður hennar kom frá Kvennalistanum, sá þriðji frá Þjóðvaka.

Á landsfundi Samfylkingarinnar 2022 er ekki aðeins skipt um formann, tillaga er um að taka upp nýtt nafn á flokknum og merki.

Það verður spennandi að sjá hvað nýir tímar færa þeim umskiptingi sem verður í boði eftir landsfund Samfylkingarinnar.