1.6.2021 10:28

Umskipti í Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkjuturninn lækkar ekki og heldur áfram að draga að sér ferðamenn en risið á innra starfi Hallgrímskirkju lækkar við þessi miklu umskipti.

Fyrir þá sem fylgst hafa með söng- og tónlistarstarfi í Hallgrímskirkju áratugum saman undir forystu Harðar Áskelssonar organista áratugum saman er óskiljanlegt að stjórnendur kirkjunnar, sóknarnefnd og prestar, skuli halda þannig á málum að hann ljúki ekki starfsferli sínum til sjötugs sem kantor við kirkjuna. Málamyndaskýringar þeirra sem fara með mannaforráð í kirkjunni duga ekki í þessu efni. Að til þeirra sé gripið staðfestir aðeins að gengið var fram af virðingarleysi við 39 ára starfsferil Harðar við kirkjuna.

G5V16JP9I.1_1242017Hörður Áskelsson og Mótettukórinn kveðja Hallgrímskirkju 31. maí 2021 (mynd: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon).

Að Mótettukórinn undir stjórn Harðar kveðji kirkjuna utan dyra á Skólavörðuholti mánudaginn 31. maí 2021 segir meira en mörg orð. Ekki sást þar neinn forráðamaður kirkjunnar í kveðjuskyni enda eru ræður þeirra um þetta mál allt varnarræður fyrir dapurlegan málstað. Í frétt Morgunblaðsins um kveðjusönginn á holtinu segir:

„Hörður sagði upp starfi sínu í byrjun maí og sagði þá að síðastliðin þrjú ár hefði listastarf Hallgrímskirkju „búið við vaxandi mótbyr frá forystu safnaðarins sem smám saman hefur rænt mig gleði og starfsorku“.“

Hallgrímskirkja var vígð 26. október 1986, fjórum árum eftir að Hörður var ráðinn þangað í því skyni að hefja þar kór- og tónlistarstarf til þeirrar virðingar sem hæfði stærsta guðshúsi landsins. Tókst honum það með glæsibrag og beitti sér þar á meðal fyrir kaupum á Klais-orgelinu, stærsta orgeli landsins sem laðar hingað organista við kirkjur víða um lönd. Orgelið var vígt árið 1992. Það hefur 4 hljómborð og fótspil, 72 raddir og 5275 pípur. Orgelið er 15 metra hátt, vegur um 25 tonn og stærstu pípurnar eru um 10 metra háar. Kaup á orgelinu voru fjármögnuð að miklu leyti með gjöfum.

Undir forystu Harðar var Listvinafélag Hallgrímskirkju stofnað árið 1982 og hefur starfað í 39 ár. Á aðalfundi 38. starfsársins, 26. maí 2021, voru samþykkt ný lög fyrir félagið og í tilkynningu um fundinn frá stjórn þess segir:

„Stærsta breytingin er sú að framvegis heitir félagið Listvinafélagið í Reykjavík og eftir 39 ára starf hættir félagið að starfa undir merkjum Hallgrímskirkju.

Ástæða þess að félagið kennir sig nú ekki lengur við Hallgrímskirkju er sú að sóknarnefnd Hallgrímskirkju sagði einróma upp samstarfssamningi við Listvinafélagið 16. júní 2020 og ekki tókst að ná samkomulagi um veru Listvinafélagsins né starfsemi þess í kirkjunni lengur.“

Með brotthvarfi félagsins úr Hallgrímskirkju lýkur metnaðarfullu list- og menningarstarfi sem farið hefur fram í kirkjunni og tengst nafni hennar. Með því að slíta samstarfi við Hörð og Listvinafélagið skapast ekki aðeins skarð í starfi innan kirkjunnar heldur almennt í menningarlífi þjóðarinnar. Má furðu sæta að kirkjustjórnin láti þetta gerast.

Listvinafélagið ætlar áfram standa fyrir metnaðarfullum listviðburðum í nánu samstarfi við kórana Mótettukórinn og Schola Cantorum. Félagið mun standa fyrir fjölbreyttum viðburðum og finna húsnæði sem hentar hverjum viðburði best.

Hallgrímskirkjuturninn lækkar ekki og heldur áfram að draga að sér ferðamenn en risið á innra starfi Hallgrímskirkju lækkar við þessi miklu umskipti.