Umpólun ÞKG og SIJ í sjónvarpssal
Í sjónvarpsumræðunum benti Bjarni á að árangur hefði náðst og hann yrði meiri í baráttunni við verðbólguna og einnig að tekist hefði að snúa óheillaþróun við í útlendingamálum.
Forystumenn 10 flokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum auk eins sem er aðeins í boði í Reykjavík norður til að mótmæla stjórnsýsluákvörðunum og bólusetningu á COVID-19 tímanum hittust í sjónvarpssal í rúmar tvær klukkustundir að kvöldi föstudagsins 1. nóvember.
Frá sjónvarpsumræðunum 1. nóvember 2024 (skjáskot af ruv.is).
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók tímabæra forystu með því að slíta stjórnarsamstarfinu, rjúfa þing og boða til kosninga.
Gjáin milli Sjálfstæðisflokks og VG er óbrúanleg eftir að Katrín Jakobsdóttir hvarf af vettvangi stjórnmálanna. Bjarni lagði hart að sér við að halda stjórninni saman undir forsæti Katrínar með því að leita málamiðlana um eitthvað sem er í raun ósættanlegt í stjórnmálum.
Málum var þannig háttað í ríkisstjórninni 2017 til 2021 að brýn úrlausnarefni komu í stað uppgjörs milli flokka. Nú á seinna kjörtímabilinu var stjórnarsamstarfið komið inn að beini og þótt viðbrögð við jarðeldunum á Reykjanesi krefjist þjóðarsamstöðu hlaut að draga til kosninga fyrr en síðar. Með brottför Katrínar hvarf límið og forysta Bjarna setti VG úr skorðum. Hann vildi ekki sitja undir stöðugum hótunum flokksins um stjórnarslit.
Í sjónvarpsumræðunum benti Bjarni á að árangur hefði náðst og hann yrði meiri í baráttunni við verðbólguna og einnig að tekist hefði að snúa óheillaþróun við í útlendingamálum og draga úr misvægi milli löggjafar hér og annars staðar, til dæmis með því að koma á fót búsetuúrræði fyrir þá sem bíða brottvísunar úr landi. Undir þetta tóku formenn fleiri flokka og meira að segja Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, talaði um að auka þyrfti „skilvirkni“ í útlendingamálum án þess að hún kynnti nokkurt „plan“ í því efni.
Þegar Kristrún var spurð um aðra málaflokka og boðaðar skattahækkanir flokksins talaði hún jafnan um „planið“, það er áætlun í ýmsum málaflokkum sem tekur tvö kjörtímabil eða jafnvel 10 ár að framkvæma að hennar sögn. Óljósari stefnu er vart unnt að hugsa sér.
Athyglisvert var að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (ÞGK), formaður Viðreisnar, minntist ekki einu orði á evru eða aðild Íslands að henni og ESB. Þetta eru ótrúleg umskipti í málflutningi formanns flokks sem stofnaður var utan um þessi baráttumál. Hvað hefur gerst?
Þá vakti umpólun Sigurðar Inga Jóhannssonar (SIJ), formanns Framsóknarflokksins, í útlendingamálum einnig athygli. Hann vék úr fyrsta sæti í Suðurkjördæmi fyrir Höllu Hrund Logadóttur forsetaframbjóðanda.
Karen Kjartansdóttir kosningastjóri Höllu Hrundar hefur líklega fylgt henni inn í Suðurkjördæmi en Sigurður Ingi las af síma sínum ræðu í anda greinar sem Karen ritaði nýlega á Vísi. Karen lét verulega að sér kveða í upphafi ársins til stuðnings tjaldbúum á Austurvelli sem kröfðust hælis fyrir Palestínumenn á Gaza.
Karen fagnar ræðu Sigurðar Inga innilega á Facebook-síðu sinni og undir lofið taka ýmsir í Samfylkingunni og nefnt er að Sigurður Ingi hafi einn manna í umræðunum nefnt Palestínu og tal Kristrúnar um „skilvirkni“ er gagnrýnt. Framsóknarmenn telja að þeir eigi fylgi meðal samfylkingarfólks sem er óánægt með stefnu Kristrúnar í útlendingamálum.