Umboðsmanni ber að kanna starfshætti dómnefndar
Umboðsmenn dómara við val á dómurum líta greinilega á umboðsmann alþingis sem liðsmann sinn.
Árið 2010 var lögfest að farin skyldi önnur leið en áður við skipan dómara. Markmiðið var að þrengja svigrúm ráðherra en þó var honum heimilað að gera tillögu um annað dómaraefni en dómnefnd vildi að hann skipaði. Tillagan yrði lögð fyrir alþingi. Þegar á þetta reyndi kom í ljós að frestur ráðherrans, tvær vikur, til að undirbúa tillögu sína reyndist svo skammur að ekki gafst tóm til að sinna rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nægilega vel að mati dómara í hæstarétti. Tveimur umsækjendum um embætti í landsrétti voru dæmdar miskabætur og tveir aðrir fara fram á skaðabætur.
Næstu lotu í átökum framkvæmdavalds og dómsvalds um skipan dómara lauk nú í vikunni þegar settur dómsmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, taldi sig ekki eiga annan kost en skipa átta héraðsdómara í samræmi við tillögu dómnefndar.
Nefndin fór langt út fyrir alla fresti og svaraði fyrirspurn ráðherra um vinnubrögð sín með skætingi. Guðlaugur Þór sendi Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra bréf þar sem hann lýsir samskiptum sínum við formann dómnefndar, Jakob R. Möller. Formaðurinn brást við bréfinu í samtali við mbl.is á þann veg að setja sig bæði á háan hest gagnvart Guðlaugi Þór og þeim sem komu að því að semja ráðherrabréfið. Þóttafull afstaða nefndarformannsins dugar ekki til að draga athygli frá forkastanlegum vinnubrögðum hans.
Þorbjörn Þórðarson fjallar um þetta í leiðara Fréttablaðsins í dag og segir:
„Atburðarás síðustu vikna hefur leitt í ljós að þetta fyrirkomulag [í lögunum frá 2010] getur sett ráðherrann, sem fer með veitingarvaldið og ber pólitíska ábyrgð á skipuninni, í vonlausa stöðu. Núverandi dómnefnd undir forystu Jakobs Möllers lagði sig fram um að útiloka tiltekna umsækjendur án skýringa, skilaði niðurstöðum allt of seint og svaraði síðan með hroka þegar settur dómsmálaráðherra vildi gera athugasemdir við umsögn hennar. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð hjá fagfólki. [...]
Eftir lestur svarbréfs dómnefndarinnar er maður engu nær um það hvernig nefndin komst að sumum niðurstöðum, eins og að telja mann með 20 ára dómarareynslu minna hæfan en dómara sem hefur starfað sem settur dómari í átta ár.“
Formaður félags lögmanna sagði í útvarpsviðtali á dögunum að með þeirri aðferð sem nú er beitt við skipan dómara ykist sjálfstæði dómstóla. Þessum blekkingarrökum hefur verið beitt síðan 2010. Það á ekkert skylt við sjálfstæði dómstóla að fulltrúar dómara beiti ráðherra og alþingi bolabrögðum við val á dómurum á grundvelli skorkorta í excel-skjölum eða með því að upplýsa ekki um vægi einstakra þátta í mati sínu. Aðferðir dómnefndanna rýra þvert á móti traust til dómstólanna.
Miðað við áhuga umboðsmanns alþingis á að nákvæmlega sé upplýst atriði sem ráða úrslitum við hæfnismat á umsækjendum um dómaraembætti og að áherslur í því efni séu í samræmi við texta í auglýsingu um laus dómaraembætti er einkennilegt að hann hefji ekki frumkvæðisathugun á vinnubrögðum dómnefnda um dómaraefni. Þá hefur umboðsmaður í áranna rás lagt áherslu á gildi pólitískrar ábyrgðar ráðherra andspænis lokuðum stjórnsýslunefndum á borð þessar dómnefndir um dómaraefni.
Umboðsmenn dómara við val á dómurum líta greinilega á umboðsmann alþingis sem liðsmann sinn. Láti hann alvarleg ummæli í bréfi setts dómsmálaráðherra fram hjá sér fara án rannsóknar að eigin frumkvæði á störfum stjórnsýslunefndarinnar dregur það úr trausti á embætti umboðsmanns.