22.9.2017 10:34

Umboðsmaður gerir Bjarta framtíð afturreka

Fáfræðin og fljótræðið birtist oft skýrast á áhættustundum. Viðvaningsbragurinn er augljós hjá Bjartri framtíð og Viðreisn og auk þess sýna Píratar enn og aftur að þeir eru eigin nafni hollir og vilja vinna sem mest tjón.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis fékk Tryggva Gunnarsson, umboðsmann alþingis, á sinn fund fimmtudaginn 21. september til að ræða málið sem leiddi til þess að Björt framtíð ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu á næturfundi sem hófst að kvöldi fimmtudags 14. september.

Tilefni stjórnarslitanna var að þá um daginn hafði verið sagt frá því að faðir forsætisráðherra hefði ritað undir bréf vegna umsóknar barnaníðings um uppreist æru sem hann fékk eftir lögbundna afgreiðslu um miðjan september 2016. Taldi Björt framtíð að um leynimakk hefði verið að ræða vegna málsins milli Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og þess vegna gæti flokkurinn ekki lengur átt aðild að ríkisstjórn.

Images-3

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins kom það fram í máli umboðsmanns á nefndarfundinum að hann teldi að Sigríður Á. Andersen hefði haft tvær ríkar ástæður til að ræða málið við Bjarna Benediktsson. Í fyrsta lagi hafi það gefið henni tilefni að kanna hvort um vanhæfi hans væri að ræða. Þetta hafi verið málefnaleg ástæða.

Í öðru lagi gat hún rætt málin við forsætisráðherra vegna þess að hann er samræmingarráðherra ríkisstjórnarinnar. Var þar vísað til þess að eftir fjármálahrunið hefði forsætisráðherra, að stjórnarráðslögum, fengið aukið hlutverk sem samræmingarráðherra ríkisstjórnar.

Á fundinum var umboðsmaður spurður hvort dómsmálaráðherra hefði borið að ræða umrætt meðmælabréf við aðra sem sátu í ríkisstjórninni. Í svari hans kom fram að þær tvær ástæður, sem hér voru tíundaðar og áttu við Bjarna Benediktsson, hefðu ekki átt við aðra ráðherra. Því má álykta að ekki hafi verið um brot á trúnaði að ræða af hálfu þeirra Sigríðar og Bjarna.

Eftir fund nefndarinnar sögðust fulltrúar Pírata þurfa að stíga til baka og hugsa málið, því væri samt ekki lokið. Björt framtíð, stjórnarslitaflokkurinn, sá ekki ástæðu til að senda mann á fundinn en í dag skrifar Björt Ólafsdóttir, fráfarandi umhverfisráðherra, grein í Fréttablaðið eins og ekkert hafi í skorist þótt kosningabomban hafi sprungið í andlitið á henni og flokki hennar.

Rétt er að minnast þess að föstudaginn 15. september ályktaði ráðgjafaráð Viðreisnar á þann veg að vinnubrögð ráðherra Sjálfstæðisflokksins í málinu stæðust ekki „þær kröfur sem Viðreisn gerir um vandaða starfshætti og gegnsæi“ og upplýsa þyrfti „að fullu um þá atburðarás sem leiddi til þess trúnaðarbrests sem orðinn er“.

Þá taldi Viðreisn „einsýnt“ að núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra gætu ekki setið áfram á ráðherrastólum á meðan á rannsókn málsins stæði auk þess sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar yrði að víkja sæti. Viðreisn á nú formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Jón Steindór Valdimarsson. Hann telur einn fund eftir í nefndinni til að ljúka málinu.

Upplýst er að hvorki Óttarr Proppé né annar í forystu innan Bjartrar framtíðar sá ástæðu til að láta forsætisráðherra vita að stefndi í stjórnarslit og ekki var gerð minnsta tilraun til að óska eftir ráðgjöf um hvaða tæki ráðherrar flokksins eða þingmenn hefðu til að afla sér upplýsinga um viðbrögð í þeirri stöðu sem þeir voru – einblínt var á stjórnarslit í skyndi.

Afleiðingarnar eru miklar á stjórnmálavettvangi eins og við var að búast. Ákvörðunin hefur verið markvisst notuð af Pírötum og erlendum vinum þeirra til að sverta land og þjóð út á við. Forstöðumaður Kauphallarinnar segir að á einni viku hafi markaðsvirði bréfa þar rýrnað um 60 milljarða króna.

Fáfræðin og fljótræðið birtist oft skýrast á áhættustundum. Viðvaningsbragurinn er augljós hjá Bjartri framtíð og Viðreisn og auk þess sýna Píratar enn og aftur að þeir eru eigin nafni hollir og vilja vinna sem mest tjón.

Fjölmiðlamenn ganga einnig í vatnið. Á vefsíðunni Kjarnanum birtist til dæmis frétt fimmtudaginn 21. september eftir Báru Huld Beck sem hófst á þessum orðum: „Vinstri græn vildu ekki starfa með Viðreisn og Bjartri framtíð í starfsstjórn eftir fall ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar fyrir helgi. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Einnig voru hugmyndir um fimm flokka ríkisstjórnarsamstarf viðraðar of seint svo ekki kom annað til greina en að boða til kosninga.“

Hafi einhver sagt blaðakonunni að unnt væri að mynda „starfsstjórn“ fríhendis með því að skipta á VG og Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn sem hefði beðist lausnar og sæti sem starfsstjórn er það einhver sem veit ekkert um hvernig staðið er að myndun eða afsögn ríkisstjórna. Misskilningurinn er álíka hrapallegur og að halda að ráðherra í ríkisstjórn megi ekki ræða í trúnaði við forsætisráðherra.

­