31.10.2017 9:45

Umboðið er hjá stjórnmálamönnunum

Forsetinn hefur engan töfrasprota sem hann getur notað til að breyta úrslitum kosninga. Stjórnmálamennirnir fengu umboð frá kjósendum til að stjórna landinu en ekki forsetinn.

Eftir að forystumenn flokkanna átta hafa gengið á fund forseta Íslands og rætt við hann um úrslit þingkosninganna, stöðu og horfur eru menn auðvitað litlu nær um það á opinberum vettvangi hvert stefnir í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Forsetinn hefur engan töfrasprota sem hann getur notað til að breyta úrslitum kosninga. Stjórnmálamennirnir fengu umboð frá kjósendum til að stjórna landinu en ekki forsetinn. Þeir verða eins og svo oft áður að finna flöt til samstarfs annars myndast ekki meirihluti á alþingi.

Stjornarradshus1

Í tilefni af kosningunum gekk Morgunblaðið lengra en áður við að opna síður sínar fyrir þeim sem hafa ekki verið taldir hallir undir blaðið. Í smáhorni við hlið leiðara blaðsins tóku að birtast greinar eftir þá sem til þessa hafa frekar hvatt til þess að menn segðu upp áskrift að blaðinu en vildu laða að því lesendur, nefni ég þar Helgu Völu Helgadóttur, nýkjörin þingmann Samfylkingarinnar, og Steingrím J. Sigfússon, gamalgróinn þingmann vinstri grænna.

Af blaðsins hálfu hefur engin skýring verið gefin á þessu nýmæli. Hvort það eykur áskrifendafjöldann er álitaefni. Sumir af hollustu áskrifendum og viðskiptavinum blaðsins líta örugglega á þetta sem meinlegan ágalla. Ef til vill breytist þetta horn í blaðinu í einskonar umræður um fundarstjórn forseta í upphafi þingfunda. Þar láta þingmenn gjarnan gamminn geisa án þess að hafa nokkuð bitastætt til málanna að leggja. Þá ber að minna á þau viðvörunarorð að borgaraleg blöð hafa mörg farið illa á því að hverfa frá meginstefnu sinni og íhaldssemi. Hún tryggir þeim trausta áskrifendur.

Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, hefur um nokkurt skeið ritað reglulega greinar í Morgunblaðið og er fengur að þeim fyrir lesendur blaðsins vegna reynslu og málefnalegrar afstöðu Hjörleifs. Í grein sinni í blaðinu í dag (31. október) segir Hjörleifur meðal annars:

„Tölulega gæti þrenns konar mynstur skilað meirihlutastjórn eftir úrslitin [í kosningunum 28. október]. 1) Hægristjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins með þátttöku Framsóknar, Miðflokks og Viðreisnar og styddist sú við 35 þingmenn. 2) „Vinstri stjórn“ fjögurra flokka undir forystu VG með aðild Samfylkingar, Framsóknar og Pírata hefði aðeins 32 þingmenn til að styðjast við og því þyrfti fimmti flokkur að koma til sem varahjól. 3) Blandað þriggja flokka stjórnarmynstur frá hægri til vinstri með þátttöku VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði 35 þingmenn við að styðjast og væri á vetur setjandi.“

Hjörleifur hallast að þriðja kostinum. Hann er skynsamlegur og hlýtur að verða kannaður til þrautar.