4.11.2023 12:11

Um „tilverurétt minnismerkis“

Eins og áður sagði spurði Morgunblaðið um „tilverurétt minnismerkisins“ fyrir rúmri viku. Þá var skriflegt svar borgarinnar að „málið væri nýuppkomið“.

Í Morgunblaðinu í dag (4. nóv.) segir frá því að fyrir rúmri viku hafii blaðið óskað eftir svörum frá Reykjavíkurborg um það hvort borgin hygðist endurskoða það sem blaðið kallar í frétt sinni „tilverurétt minnismerkisins“ og á þar við styttu af séra Friðriki Friðrikssyni við Amtmannsstíg í Reykjavík.

1447857Styttan af sr. Friðriki eftir Sigurjón Ólafsson reis við Amtmannsstíg árið 1955 að frumkvæði „þjóðkunnra borgara“ (mynd:mbl.is/Hákon).

Raddir hafa verið uppi um að „tilveru“ styttunnar verði að ljúka, að minnsta kosti á þessum stað, ef ekki alfarið, vegna frásagnar ónafngreinds manns í nýrri bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings: Séra Friðrik og drengirnir hans.

Árið 2018 þegar 150 ára afmælis séra Friðriks var minnst sagði maðurinn Stígamótum, samtökum sem berjast gegn kynferðisofbeldi, frá atviki sem gerðist þegar hann 10 eða 11 ára var leiddur á fund séra Friðriks í stofu hans í KFUM-húsinu við Amtmannsstíg. Hafði maðurinn samband við Guðmund þegar hann var að leggja lokahönd á verk sitt og er sagt frá atvikinu í bókinni.

Samtal við Guðmund í bókmenntaþætti ríkisútvarpsins, Kiljunni, miðvikudaginn 29. október vakti heitar umræður um málið, ekki síst á samfélagsmiðlum. Þar er enn deilt um alvarlegt efni þess.

Í upphafi sagðist stjórnandi Kiljunnar, Egill Helgason, „steinhissa á því hversu margir tjá sig án þess að hafa lesið bókina - ég hefði haldið að lestur hennar væri ákveðin forsenda á þessu stigi málsins. Að menn kynni sér málavöxtu í stað þess að stökkva fram með tal um að „alltaf hafi verið orðrómur“.“

Þetta er að sjálfsögðu réttmæt ábending hjá Agli og einnig hitt sem hann segir á Facebook að það liggi ekki „á að rífa niður styttu eða fá viðbrögð eða fordæmingu allra sem tengjast málinu. Séra Friðrik hefur verið í gröfinni í 62 ár en bókin kom út núna í vikunni. Lesið hana..“.

Eins og áður sagði spurði Morgunblaðið um „tilverurétt minnismerkisins“ fyrir rúmri viku. Þá var skriflegt svar borgarinnar að „málið væri nýuppkomið“ og margir borgarstarfsmenn væru í vetrarfríi.

Á vefsíðunni visir.is sagði föstudaginn 3. nóvember að borgarráð hefði verið upptekið við að ræða fjárhagsáætlun og hefði því ekki rætt það sem blaðamaðurinn kallar „stóra styttumálið“ á fundi ráðsins fimmtudaginn 2. nóvember. „

Styttan er gerð af Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara en þeir voru samtíma í Kaupmannahöfn og kenndi sr. Friðrik listamanninum ítölsku í einkatímum fyrir námsferð til Ítalíu. Árið 1955 var styttan sett á stallinn við Amtmannsstíg að frumkvæði nokkurra „þjóðkunnra borgara“ að sögn Guðmundar og án nokkurrar „viðhafnar af þessu tilefni“ að ósk séra Friðriks. Garðyrkjumenn borgarinnar sáu um frágang í kringum styttuna.

Í bók Guðmundar segir ekki hvort „þjóðkunnu borgararnir„ með Valtý Stefánsson, þáv. ritstjóra Morgunblaðsins, í broddi fylkingar gáfu borginni styttuna eða fengu aðeins land á góðum stað undir hana.

Þetta allt hlýtur að verða grandskoðað þegar „tilveruréttur minnismerkisins“ er metinn að loknu vetrarfríi. Hvort aðför meirihluta borgarstjórnar að tilverurétti borgarskjalasafnins tefur einnig fyrir að borgaryfirvöld átti sig á réttarstöðu sinni kemur í ljós.