11.6.2019 9:58

Um sorgarfrétt úr Fljótshlíð

Fjölmiðlun hefur breyst á þann veg að á netinu birtast fréttir næstum í sama mund og þær gerast. Síðan koma út blöð með sömu eða svipuðum fréttum og birst hafa á netinu.

Arnór Ragnarsson, gamalreyndur Morgunblaðsmaður, skrifar grein í blaðið í morgun (11. júní) sem hefst á þessum orðum:

„Íslensk tunga á í vök að verjast. Þeir sem helst ættu að standa vörð eru blaðamenn og aðrir þeir sem skrifa í dagblöð, á vefmiðla og textavarp. Ég er nú enginn íslenskufræðingur en nú tel ég að blaðamenn séu að fara út af sporinu.“

Þessar áhyggjur eru réttmætar en eiga ekki aðeins við um ritað mál í fjölmiðlum heldur einnig talað. Villur rata greiðlega inn í það sem sagt er í fréttum eða útvarps- og sjónvarpsþáttum. Þá leggur ríkisútvarpið litla rækt við að fréttaþulir geti flutt texta í fáeinar mínútur án þess að mismæla sig. Við hlið þessa tafsandi fólks sitja þaulvanir útvarpsþulir og bíða átekta.

Fjölmiðlun hefur breyst á þann veg að á netinu birtast fréttir næstum í sama mund og þær gerast. Síðan koma út blöð með sömu eða svipuðum fréttum og birst hafa á netinu. Á ritstjórnum sumra blaða líta menn líklega þannig á að ákveða beri umgjörð frétta með hliðsjón af því að lesendur viti efni þeirra eftir lestur þess sem viðkomandi miðill hefur sagt um það á netinu.

Að kvöldi hvítasunnudags (9. júní) var hörmulegt flugslys skammt fyrir innan flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð. Fimm manns voru í vélinni og létust þrír. Á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 11. júní birtist risastór mynd af flaki flugvélarinnar og inn í hana var var felld fyrirsögnin: Harmur heillar fjölskyldu. Í stuttum texta inn í myndinni stóð: „Hjón og sonur þeirra létust þegar flugvél brotlenti utan flugvallar í Fljótshlíð á sunnudagskvöld. Annar sonur þeirra og tengdadóttir liggja þungt haldin á sjúkrahúsi.“

76540b87-f562-455a-aeca-0007fa5cdd82Nánari frétt um slysið er inni í Fréttablaðinu, þrír blaðamenn eru skráður fyrir henni en ekki er skýrt frá heimildarmanni fréttarinnar um fjölskylduharmleikinn í slysinu. Hann er síðar staðfestur af Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni á Suðurlandi, í samtali við ruv.is og mbl.is.

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 11. júní er sagt frá flugslysinu í þriggja dálka frétt neðst á forsíðu með lítilli mynd og fyrirsögninni: Aðgerðir gengu vel í Múlakoti.

Þarna er greinilega gengið að því sem vísu að lesendur blaðsins hafi á annan hátt aflað sér upplýsinga um að eitthvað hafi gerst í Múlakoti því varla hefði fyrirsögnin verið á þennan veg hefði vakað fyrir blaðinu að draga athygli lesenda sinna að hörmulegu slysi. Það er gert á bls. 4 undir fyrirsögninni: Harmleikur er þrír létust í flugslysi.

0d5ab69b-2349-4d0a-a4b5-38dc39b1c0e0Aðalfréttin efst á forsíðu Morgunblaðsins er undir fyrirsögninni: Lýsa streitu og kulnun og þar er sagt frumniðurstöðum gagnaöflunar meðal hjúkrunarfræðinema sem útskrifuðust á síðasta ári úr HÍ og HA. 38% töldu sig vera að miklu eða mjög miklu leyti útbrunnin vegna námsins.

Aðalmyndin á forsíðu Morgunblaðsins er af tveimur ungum konum og hefur önnur hund á öxlinni, fyrirsögn undir myndinni er: 1.400 hundar á hundasýningu um helgina.

Sú fyrirsögn fellur að ábendingu Arnórs Ragnarssonar um að blaðamenn megi ekki fara málfarslega út af sporinu. Um fréttamatið gilda önnur lögmál.