30.12.2021 10:07

Um sögu Fréttablaðs og flugvallar

Fjölmiðlar og flokkar skapa sér traust með þeirri sögu sem þeir segja, ímynd sem þeir skapa sér í krafti sögunnar.

Þeir sem skrifa mikið um málefni líðandi stundar reka sig oft á að óvarlegt getur verið að treysta á minni sitt í stað þess að leita staðfestingar í heimildum áður en fullyrðingar eru birtar. Raunar er ekki til nein afsökun lengur fyrir því að leita ekki af sér grun þegar menn hafa fortíðina við fingurgómana með aðstoð leitarvéla í netheimum.

Í hástemmdum leiðara Fréttablaðsins í dag (30. desember) segir ritstjórinn Sigmundur Ernir til varnar frjálsum fjölmiðlum að í aðdraganda þingkosninga árið 2003 hafi íslenskir ráðamenn ætlað að „að þagga niður í nýju íslensku fjölmiðlaveldi ... – og það með endurteknum uppnefnum og hallmælum – af því eigendurnir voru ekki í klíkunni og farnir að valda rétta málsgagninu skaða“.

Ritstjórinn talar þarna um Fréttablaðið sem var í eigu huldumanna lengst af kosningabaráttunnar vorið 2003 og studdi þá Samfylkinguna, flokk Sigmundar Ernis.

Fréttablaðið skýrði ekki frá því fyrr en 2. maí 2003, átta dögum fyrir alþingiskosningar, að 12. júlí 2002 hefðu nýir eigendur í félaginu Frétt ehf. bjargað blaðinu frá gjaldþroti, þá gengu þeir Bónusfeðgar Jóhannes og Jón Ásgeir til liðs við Gunnar Smára Egilsson, ritstjóra blaðsins. Í kosningabaráttunni voru trúnaðargögn frá Baugi, félagi feðganna, nýtt á dramatískan hátt í Fréttablaðinu til að koma höggi á Davíð Oddsson, þáv. forsætisráðherra.

Lýsing Sigmundar Ernis á því sem dreif á daga Fréttablaðsins í aðdraganda kosninganna 2003 er hreinn hugarburður – órökstutt gaspur.

Reykjavik-10Frá Reykjavíkurfkugvelli (mynd Isavia)

Fyrir tæpum 20 árum bar framtíð Reykjavíkurfkugvallar hátt í umræðum fyrir borgarstjórnarkosningar. Þá var ljóst að hópur Reykvíkinga styrktist jafnt og þétt í andstöðu við flugvöllinn. R-listinn hófst næstu 4 ár markvisst handa við að þrengja að flugvellinum og starfsemi þar. Á árunum sem síðan eru liðin hafa mörg pólitísk skref verið stigin til að sætta ólík flugvallarsjónarmið.

Klukkan verður ekki færð til baka í Vatnsmýrinni. Mannvirki sem risið hafa í nágrenni flugvallarins undanfarin 20 ár verða ekki rifin. Sjálfstæðisflokkurinn mótaði sér skýra stefnu í flugvallarmálinu á landsfundi sínum, flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri þar til annar jafngóður eða betri staður finnst.

Þetta er afstaða Hildar Björnsdóttur frambjóðanda í forystusæti sjálfstæðismanna í Reykjavík vorið 2022. Hún hefur m.a. kynnt hana á samfélagsmiðli fyrir Þorkeli Á. Jóhannssyni, flugmanni, talsmanni þess að Reykjavíkurflugvöllur sé á sínum stað í Vatnsmýrinni. Í Morgunblaðinu í dag gerir Þorkell hins vegar Hildi og afstöðu hennar til Reykjavíkurflugvallar tortryggilega.

Flugvöllurinn hverfur ekki á kjörtímabili borgarstjórnar sem hefst 14. maí 2022. Línur hafa verið lagðar um óbreytt ástand til margra ára.

Fjölmiðlar og flokkar skapa sér traust með þeirri sögu sem þeir segja, ímynd sem þeir skapa sér í krafti sögunnar. Sigmundur Ernir vill skrifa sig frá sögu Fréttablaðsins og Þorkell Á. Jóhannsson vill að saga Sjálfstæðisflokksins sé að hans höfði. Hvorug tilraunin til að víkja sér undan sögunni heppnast.