Um formennsku í Samfylkingunni
Össur hefur verið óþreytandi að minna á flokksformennsku sína og oftast gætir biturleika í gegnum gálgahúmorinn. Nú getur hann svo ekki unnt Guðrúnu að ná kjöri á eigin forsendum.
Össur Skarphéðinsson, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, bjó til þá kenningu að Guðrún Hafsteinsdóttir hefði ekki náð kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins á eigin forsendum heldur fyrir tilstilli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þetta viðhorf til kvenna í stjórnmálum er ekki nýtt, það þykir hins vegar almennt frekar gamaldags nú á tímum.
Það var ekki tekið út með sældinni fyrir Össur haustið 2002 og vorið 2003 þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hraktist úr borgarstjórastólnum að kröfu formanna VG og Framsóknarflokksins í formannstíð Össurar í Samfylkingunni. Niðurstaða Össurar var að setja Ingibjörgu í fimmta sæti á lista í Reykjavík fyrir þingkosningarnar 2003 og kynna hana sem forsætisráðherraefni flokksins. Skyldi stefnt að því að flokkurinn fengi hið minnsta 35% ef ekki 40% í þingkosningum í kosningunum.
Össur Skarphéðinsson fagnar formennsku í Samfylkingunni vorið 2000 (mynd:mbl.is/Árni Sæberg).
Þegar Össur kynnti forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í janúar 2003 lofaði Ingibjörg Sólrún að styðja Össur sem formann. Strax síðsumars 2003 var ljóst að hún hafði tekið til við samblástur gegn Össuri. Talið var að fylgi Samfylkingarinnar hefði verið 32% þegar Ingibjörg Sólrún bolaði Össuri Skarphéðinssyni úr formannssætinu árið 2005 en það reyndist 26,8% í þingkosningum 2007 undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.
Össur hefur verið óþreytandi að minna á þetta síðan og oftast gætir biturleika í gegnum gálgahúmorinn. Nú getur hann svo ekki unnt Guðrúnu að ná kjöri á eigin forsendum í Sjálfstæðisflokknum heldur telur hana handbendi annarra.
Bent var á það hér á síðunni að ekki hefði munað nema 19 atkvæðum á Guðrúnu Hafsteinsdóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í formannskjörinu í Sjálfstæðisflokknum 2. mars og tveimur atkvæðum að Guðrún fengi ekki yfir 50% atkvæða.
Af þessu tilefni benti félagi í Samfylkingunni á að einu sinni hefði aðeins munað einu atkvæði í formannskjöri í Samfylkingunni.
Það var á landsfundi Samfylkingarinnar 20. mars 2015. Árni Páll Árnason bauð sig þá fram til endurkjörs. Klukkan 17.00 daginn fyrir fundinn bauð Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2009-2016, sig óvænt fram gegn Árna Páli. Í kosningunni 20. mars hlaut Árni Páll 49,49% atkvæða eða 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 49,28% og 240 atkvæði.
Í setningarræðu á fundinum sagði Árni Páll: „Ég get lofað því að ég verð ekki síðasti formaður Samfylkingarinnar.“ Þetta hafa reynst orð að sönnu. Á hinn bóginn hefur Samfylkingin valið þá leið að krýna formann í stað þess að kjósa, eins og sannaðist árið 2022 við valið á Kristrúnu Frostadóttur.
Frá því að Ingibjörg Sólrún lét af formennsku í Samfylkingunni árið 2009 hafa fimm formenn verið þar: Jóhanna Sigurðardóttir, Árni Páll Árnason, Oddný Harðardóttir, Logi Einarsson og Kristrún Frostadóttir. Oddný sat aðeins frá 3. júní 2016 til 31. október 2016 en í þingkosningum þá fékk Samfylkingin aðeins þrjá þingmenn kjörna.
Á sama tíma fram til 2. mars 2025 var Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.