8.5.2017 14:42

Um 150 umsagnir um fjármálaáætlun

Mikill fjöldi umsagna sem fjárlaganefnd hefur borist sýnir hve fráleitar fullyrðingarnar eru um að ekki sé haft samráð um efni áætlunarinnar við þá sem hlut eiga að máli.

Forvitnilegt er að fylgjast með ferlinu á alþingi vegna fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og fjárlagaáætlunar hennar til fimm ára, 2018 til 2022. Í Morgunblaðinu í morgun, 8. maí segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar, að nefndin muni í vikunni fara yfir þær 150 umsagnir sem bárust vegna fjármálaáætlunarinnar. Haraldur segir:

„Við munum, í þessari viku, fara yfir umsagnir. Það eru nefndardagar á miðvikudaginn og fimmtudaginn. Það er ekki tímabært að leggja neinar línur fyrr en eftir næstu viku. Við höfum verið að fara yfir umsagnirnar. Það eru áberandi margar frá ferðaþjónustunni, líklega er þriðjungur umsagnanna þaðan.“

Haraldur segir nefndina hafa verið í yfirlestri og að safna ábendingum síðustu daga og engin ákvörðun hafi verið tekin um breytingar.

Ásgeir Brynjar Torfason sem á sæti í fjármálaráði, opinberu ráði sem segir álit sitt á fjármálaáætluninni, var gestur minn á ÍNN í síðustu viku (sjá hér á síðunni undir Þættir á vefslánni). Við ræddum meðal annars fjármálaáætlunina og velti ég fyrir mér hvort umræðurnar um hana hefðu grafið undan ferlinu á fyrsta ári sem það er í gildi.

Ég vona að svo sé ekki. Hvernig sem á málið er litið hlýtur að teljast til bóta að rýna fram á við á þennan hátt þótt enginn geti sagt fyrir um framtíðina. Það hvílir á fjármálaráðherra og ríkisstjórn að leggja fram áætlunina. Hún er ekki bindandi heldur vísbending um hvers megi vænta standist gefnar forsendurnar.

Mikill fjöldi umsagna sem fjárlaganefnd hefur borist sýnir hve fráleitar fullyrðingarnar eru um að ekki sé haft samráð um efni áætlunarinnar við þá sem hlut eiga að máli. Samráðið er í raun víðtækara og skipulegra en áður hefur þekkst, til dæmis við breytingar á lögum um virðisaukaskatt.

Hvað sem líður efni málsins hefur verið undarlegt að heyra fulltrúa ferðaþjónustunnar fullyrða hvað eftir annað í fjölmiðlum að með áformum um að hækka virðisaukaskatt á þjónustuna sé vegið að greininni án samráðs við hana. Haraldur Benediktsson segir að líklega hafi fjárlaganefnd borist um 50 umsagnir frá ferðaþjónustunni og nefndin grandskoði þær allar.

Í samtali okkar Ásgeirs Brynjars nefnir hann tvo turna til sögunnar við stjórn efnahagsmálanna: peningastefnuna í höndum seðlabankans og fjármálastefnuna í höndum ríkisstjórnar og alþingis. Það hafi sannast vel á undanförnum árum eftir fjármálahrunið hve mikilvægt sé að stefna og stjórn þessara mála skarist svo að til verði blönduð stefna öllum til hagsbóta.