1.11.2021 10:06

Uffe Ellemann-Jensen 80 ára

Hann var tíður gestur á Íslandi eins og minningin um Langá sýnir. Hann fylgdist vel með málum hér og sýndi landi og þjóð vinsemd sem mótaðist stundum af kaldhæðni hans.

Uffe Ellemann-Jensen sem var utanríkisráðherra Dana í tæp 11 ár er 80 ára í dag (1. nóvember) og segir í viðtali við Jyllands-Posten að nú sé hann sestur í helgan stein. Hann sé meira að segja hættur stangveiði.

Í viðtalinu segir að nú hafi síðasti laxinn verið veiddur og veiðistangirnar hafi verið gefnar, fyrir utan laxastöngina og Thomas & Thomas og Hardy Smuggler silungastöng. Sömu sögu sé að segja um veiðibyssur og sumar- og veiðihús á jósku heiðunum þar sem hann leitaði ró og friðar frá amstri daganna í stjórnmálunum. Hann sat á þingi 1977-2001, var formaður Venstre-flokksins (mið-hægri) 1984-1998 og utanríkisráðherra 1982-1993.

Í upphafi samtalsins er þess getið að stundum handleiki Uffe Ellemann-Jensen gömlu veiðistöngina og minnist hvinsins þegar flugan kleif loftið á leið í ána.

„Það er góð tilfinning,“ segir hann og ein ákveðin veiðiá birtist í draumum hans: Langá á Íslandi og lax sem leynist þar við klett.

Það er fleira en þetta sem snertir Ísland í samtalinu.

Sagt er frá því að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum þegar hann varð ekki forsætisráðherra árið 1998. Þá réðu 176 atkvæði á Færeyjum því að jafnaðarmaðurinn Poul Nyrup Rasmussen gat fagnað enn fjórum árum í embættinu. Uffe Ellemann-Jensen hjólaði í hring umhverfis Dyrehaven, virti fyrir sér dádýr og sagði af sér sem formaður Venstre. Hann samdi afsagnarræðuna í húsinu á heiðunum.

Uffe-ellemann-jensenMyndin er úr afmælisviðtalinu við Uffe Ellemann-Jensen í Jyllands-Posten

Segir í blaðinu að þá eins og oft áður hafi hann fengið innblástur úr Íslendingasögunum (de nordiske sagaer segir danski blaðamaðurinn) og vitnað í það þegar Gunnar á Hlíðarenda heldur utan en snýst hugur og fer hvergi með orðunum „fögur er hlíðin“.

Uffe Ellemann-Jensen sneri hins vegar ekki til baka:

„Ég hef síðan búið við þær skorður að blanda mér ekki í dönsk stjórnmál, gamlir formenn eiga að sýna sig en ekki láta í sér heyra.“

Hann lét þó að sér kveða í umræðum um alþjóðamál. Í sjónvarpsþættinum Ellemann og Lykketoft sögðu hann og jafnaðarmaðurinn Mogens Lykketoft, fyrrverandi utanríkisráðherra, álit sitt á alþjóðastjórnmálum líðandi stundar. Auk þess skrifaði hann vikulegan dálk í Berlingske Tidende.

Árið 1995 var rætt um Uffe Ellemann-Jensen sem hugsanlega framkvæmdastjóra NATO þegar Willy Claes neyddist til að segja af sér embættinu. Bandaríkjastjórn studdi Ellemann-Jensen en Frakkar lögðust gegn honum og studdu Spánverjann Javier Solana. Olli þetta Ellemann-Jensen miklum vonbrigðum. Anders Fogh-Rasmussen sem tók við af honum sem formaður Venstre varð bæði forsætisráðherra Danmerkur og framkvæmdastjóri NATO.

Þegar Uffe Ellemann-Jensen var utanríkisráðherra fylgdist ég með baráttu hans á heimavelli við þá sem lögðust gegn því að NATO-ríkin svöruðu meðaldrægum kjarnorkuflaugum Sovétríkjanna sem ógnuðu Vestur-Evrópu. Vegna þessarar andstöðu varð hann að skýra afstöðu danska þingsins í neðanmálsgrein við NATO-ályktanir. Lýsti hann því síðar hve vandræðalegt honum þótti þetta.

Hann var tíður gestur á Íslandi eins og minningin um Langá sýnir. Hann fylgdist vel með málum hér og sýndi landi og þjóð vinsemd sem mótaðist stundum af kaldhæðni hans.