28.3.2022 10:03

Tylliástæða Loga

Telur Hildur Sverrisdóttir réttilega að þessi orð jaðri „við ósmekklegheit“ og hljóti „að teljast tylliástæða fyrir málflutningi um inngöngu Íslands í ESB á fölskum forsendum“.

Í samtali við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 27. mars gaf stjórnandinn, Kristján Kristjánsson, til kynna að hann sætti sig ekki að fullu við aðildina að NATO frá 1949 og varnarsamninginn við Bandaríkin frá 1951 vegna þess að hvorugt hefði verið borið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Að íslenskir kjósendur hafi ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til NATO og varnarsamningsins stangast á við veruleika kalda stríðsáranna þegar þessi mál bar mjög hátt á innlendum stjórnmálavettvangi. Tvisvar sinnum, 1956 og 1971, voru myndaðar vinstri stjórnir með brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni. Í báðum tilvikum reyndist þetta dauður bókstafur. Snemma árs 1974 rituðu 55.522 kjósendur á fáeinum vikum undir hvatningu Varins lands til ríkisstjórnarinnar um að falla frá ótímabærum áformum um brottför varnarliðsins.

Kjósendur fengu fjölmörg tækifæri til að segja hug sinn um NATO-aðildina og varnarsamninginn og hafa þau enn. Tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO-aðildina hafa margoft verið fluttar á þingi en aldrei notið fylgis meirihluta þingmanna.

EU-NATO-flagsOrðin um þjóðaratkvæðagreiðslu nú féllu í samhengi við það að Kristján vakti máls á tillögu stjórnarandstöðunnar um að efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort haldið skyldi áfram ESB-aðildarviðræðum.

Utanríkisráðherra minnti Kristján á að hér ætti alþingi síðasta orðið um þjóðaratkvæðagreiðslur og væri ekki meirihluti fyrir slíkri atkvæðagreiðslu þar yrði hún ekki boðuð. Fyrir þingkosningar sem fram fóru 25. september 2021 hefði enginn flokkur gert ESB-aðild að kosningamáli. Að stjórnarandstaðan vekti ESB-aðild upp sem ágreiningsmál vegna Úkraínustríðsins kallaði ekki á þjóðaratkvæðagreiðslu. Á alþingi væri ekki meirihluti fyrir að hefja ESB-aðildarviðræður að nýju.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vitnar í grein í Morgunblaðinu í dag (28. mars) í orð Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarþingi flokksins á dögunum um að Evrópusambandið hefði tekið sér vaxandi hlutverk í varnar- og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu og þess vegna væri enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerðist fullgildur aðili í því samstarfi lýðræðisríkja.

Telur Hildur réttilega að þessi orð jaðri „við ósmekklegheit“ og hljóti „að teljast tylliástæða fyrir málflutningi um inngöngu Íslands í ESB á fölskum forsendum“. Gera verður kröfu til Loga um að hann færi efnisleg rök fyrir máli sínu „annars gætu einhver haldið að verið væri að nýta sér hörmungar fólks og ótta um öryggi heimshluta okkar til að auka fylgi við inngöngu í félagsskap sem sáralítil krafa hefur annars verið uppi um að fylgja eftir,“ segir Hildur.

Eins og fram kemur í grein Hildar er það aðildin að NATO sem tryggir varnar- og öryggishagsmuni okkar. ESB-aðildin bætir ekki neinu við í því efni. Það er rangt hjá Loga Einarssyni að ESB hafi tekið að sér „vaxandi hlutverk í varnar- og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar“. ESB treystir alfarið á NATO í því efni og eins og seta fulltrúa ESB á NATO-fundum sýnir.