15.8.2020 12:09

Tvöföld skimun

Breskir læknaprófessorar telja þá leið sem íslensk stjórnvöld hafa nú valið öruggustu aðferðina til að hemja veiruna á landamærunum.

Sé farið yfir ráðstafanir sem gripið er til í nágrannalöndunum um þessar mundir er undarlegt að þeir sem standa að ferðaþjónustu hér á landi láti eins og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í gær um tvöfalda skimun með 4-5 daga millibili á öllum sem koma til landsins sé eini þröskuldurinn á leið þeirra sem hingað vilja koma.

Fréttir að utan sýna að í Noregi, Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi þaðan sem flestir ferðamenn komu í glufunni sem myndaðist í júlí grípa yfirvöld til harðra aðgerða til að sporna gegn veirunni á heimavelli. Þær beinast meðal annars að því að fylgjast náið með þeim sem koma frá öðrum löndum.

Að framfylgja ákvörðunum um aðgerðir á landamærum er ekki alls staðar auðvelt. Nærtækt er þó að bera saman aðgerðir á tveimur eyjum, Íslandi og Bretlandi. Nokkur lönd voru sett á rauðan lista í Bretlandi í vikunni, þar á meðal Frakkland.

Um 160.000 breskir ferðamenn í Frakklandi háðu föstudaginn 14. ágúst kapphlaup við tímann þegar þeir reyndu að komast heim fyrir klukkan 04.00 að morgni laugardags 15. ágúst og losna þannig við að fara í 14 daga sóttkví. Upphaflega boðaði breska stjórnin tveggja sólarhringa frest til að komast hjá sóttkvínni, hann rynni út klukkan 04.00 að morgni sunnudags 16. ágúst en stjórnir í Wales, Skotlandi og Norður-Írlandi vildu flýta gildistöku nýju reglnanna um sólarhring.

D86da29c-4e8b-4dc2-b1e8-2c6c7ca4645fSkimað í Bretlandi.

Ákvörðun bresku stjórnarinnar um 14 daga sóttkví sætir gagnrýni. Prófessor Karol Sikora, forseti læknadeildar Buckingham-háskóla, segir laugardaginn 15. ágúst við The Daily Telegraph: „Skimun við komu og svo að nýju nokkru síðar til öryggis. Jafnvel gegn gjaldi. Hvers vegna ekki? Við höfum getu til þess ­– það er heimskulegt að nýta hana ekki.“ Í sama blaði segir Linda Bauld, prófessor í lýðheilsu við Edinborgar-háskóla: „Sóttkví er harðneskjuleg aðgerð og vandinn er sá að fólk virðir hana ekki. Það eru til aðrar leiðir. Þar skiptir mestu að skima ferðamenn við komu. Enn árangursríkara kerfi er að mínu mati að krefjast síðan annarrar skimunar nokkrum dögum síðar, það mundi stytta sóttkvína úr tveimur vikum í eina.“

Þarna er lýst veruleika sem blasir við Bretum. Breskir læknaprófessorar telja þá leið sem íslensk stjórnvöld hafa nú valið öruggustu aðferðina til að hemja veiruna á landamærunum. Hvers vegna skyldi fólk ekki vilja ferðast til eyju sem notar þetta kerfi gegn veirunni? Snýst ekki málið um að hafa hugmyndaflug til að breyta nýju reglunni í viðskiptatækifæri?

Að slá því föstu að landamærum Íslands hafi verið lokað er rangt. Þeir sem básúna það flytja falsfréttir og einkennilegt er ef fulltrúar ferðaþjónustunnar gera það. Aldrei hefur landamærum Íslands verið lokað á þessu ári og þeim verður ekki lokað, umferð um þau er hins vegar stjórnað í samræmi við hættumat hverju sinni. Að breyta þeirri stjórn í „áfall“ fyrir ferðaþjónustuna eins og fólst í þráspurningu fréttamanns ríkisútvarpsins í 18-fréttum 14. ágúst er of þröngt sjónarhorn – þjóðarhagur og heilbrigði landsmanna er í húfi.