16.10.2020 10:15

Tvöföld falleinkunn frá Feneyjanefnd

Í nýja álitinu er vísað til þess sem sagði um texta stjórnlagaráðs í áliti nefndarinnar frá árinu 2013. Falleinkunn Feneyjanefndarinnar um „nýju stjórnarskrána“ er tvöföld.

Einkenni málflutnings í þágu „nýju stjórnarskrárinnar“ er að aldrei er rætt um efni málsins heldur aðferðina við að smíða skjalið og hún er fegruð með því að vísa til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012. Minnihluti kjósenda greiddi atkvæði um nokkur efnisákvæði og skjal frá stjórnlagaráði með ósamrýmanlegum og hráum málamiðlunartillögum í löngum óskýrum texta. Sjálf skipan þessa ráðs var utan alls sem skynsamlegt var en hæstiréttur dæmdi kosningar til þess ógildar.

Eftir að þessi texti hafði fengið falleinkunn hjá Feneyjanefndinni, sérfræðinganefnd Evrópuráðsins um stjórnarskrármál, í mars 2013 vísaði alþingi þessum texta til hliðar og mótaði nýja stefnu.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir spyr til dæmis Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, dálkahöfundur Fréttablaðsins, í Bakþönkum blaðsins í morgun (16. október):

„Hvar er nýja stjórnarskráin? Spurningin er út um allt, meðal annars á vegg við hliðina á ráðuneyti. Sem þurfti reyndar að mála tvisvar.“

Viti Jóhanna Vigdís ekki svarið við þessari spurningu og þurfi að styrkja málstað sinn með veggjakroti, hefur hún ekki unnið heimavinnuna og kýs þess í stað að halda innihaldslausum rangfærslum að fólki, rangfærslum sem nauðsynlegt er að mála yfir vilji menn hafa það sem er satt og rétt.

1234634Þessi aðsenda mynd birtist á mbl.is og sýnir þegar veggjakrot um „nýju stjórnarskrána“ var þvegið af steinvegg við Skúlagötu. Barátta stuðningsmanna „nýju stjórnarskrárinnar“ snýst um spurningar þótt svörin liggi á lausu, þau henta þó ekki málstaðnum.

Fyrir nokkrum dögum sendi Feneyjanefndin frá sér álit á fjórum stjórnlagaákvæðum sem forsætisráðherra lagði fyrir hana. Í álitinu er vísað til þess sem sagði um texta stjórnlagaráðs í áliti nefndarinnar frá árinu 2013. Falleinkunn Feneyjanefndarinnar um „nýju stjórnarskrána“ er tvöföld.

Feneyjanefndinni þótti fjöldi ákvæða í tillögum stjórnlagaráðs of óljós og almennt orðuð og það myndi leiða til mikilla vandkvæða við túlkun þeirra og framkvæmd. Þá væri stjórnkerfið sem tillögurnar boðuðu frekar flókið og án samræmis. Nauðsynlegt væri að skoða mun nánar flóknar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur bæði frá lögfræðilegum og stjórnmálalegum sjónarhóli. Sú skipan sem boðuð væri kynni að leiða til stjórnarkreppu og óstöðugleika í stjórnmálum og vega þannig alvarlega að góðum stjórnarháttum. Skerpa þyrfti inntak ákvæða sem boðuðu allskonar réttindi og frelsi, til dæmis félagsleg og efnahagsleg réttindi. Það yrði að skilgreina tengsl milli réttinda og skyldna þegar þessi ákvæði væru samin. Einnig þyrfti að skýra ákvæði sem sneru að réttarkerfinu, einkum þau sem lytu að óhreyfanleika dómara og sjálfstæði saksóknara.

Í lok texta síns segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir:

„Hvers vegna hefur Alþingi enn ekki staðfest nýju stjórnarskrána? Þjóðin er tilbúin fyrir hana og telja má líklegt að sífellt fleiri kjósendur spyrji sjálfa sig, og kjörna fulltrúa sína, eftirfarandi spurninga á komandi kosningavetri: Hvar er nýja stjórnarskráin? Hvað tefur? Hvað ætlið þið að gera í málinu? Ég bíð spennt eftir svari.“

Ef höfundur þessara undarlegu spurninga vildi hafa það sem sannara reynist í stjórnarskrármálinu liggja allar upplýsingar um það á lausu og þar með svör við spurningunum. Annað vakir á hinn bóginn fyrir höfundinum, að ala á ranghugmyndum af því að málstaðurinn er án innihalds. Að misnota stjórnarskrármálið á þennan hátt er til skammar.