2.7.2024 10:55

Tvöfeldni Sigmundar Davíðs

Dæmin fimm lýsa tvöfeldni SDG og þar með Miðflokksins. Það er leit að íslenskum stjórnmálamanni sem á skrautlegri feril að þessu leyti en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. 

Athygli beinist eðlilega að tveggja manna þingflokki Miðflokksins þegar flokkurinn rýkur upp í fylgi samkvæmt könnunum. Miðflokkurinn varð til í september 2017 við klofning innan Framsóknarflokksins þar sem Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG) var hafnað við formannskjör. Miðflokkurinn varð frægur vegna Klaustursmálsins svonefnda í nóvember 2018. Eftir atvikið gengu nokkrir þingmenn úr Flokki fólksins til liðs við Miðflokkinn. Með SDG í þingflokki nú er Bergþór Ólason sem sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn.

Í Morgunblaðinu í dag (2. júlí) skýrir SDG velgengnina í könnunum núna með því að hann og Bergþór haldi sínu striki hvort sem gangi vel eða illa.

Pye4m4dz_1719917579707Forsætisráðherrarnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron ræða saman í Alþingishúsinu 28. október 2015. (Mynd: vefur stjórnarráðsins.)

Hér skulu nefnd fimm dæmi til marks um stefnufestu SDG:

  1. Vegna straums flóttamanna og hælisleitenda frá Sýrlandi síðsumars 2015 kom SDG forsætisráðherra á fót sérstakri ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda. Hann boðaði mikilvægi þess að stjórn og stjórnarandstaða, stofnanir, sveitarfélög og samfélagið allt sameinaðist til að takast á við þennan vanda. Til varð nefnd allra þingflokka sem samdi útlendingalöggjöf sem samþykkt var 2016. Nú sver SDG af sér alla ábyrgð á slíkri samstöðu.
  2. SDG hitti David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, á fundi í Reykjavík í október 2015 og ræddi við hann hugmyndina um lagningu sæstrengs til rafmagnsflutninga milli Íslands og Bretlands. Nú telur SDG allt tal um slíkan sæstreng aðför að fullveldi Íslands.
  3. SDG sótti Parísarráðstefnuna um loftslagsmál og fagnaði sérstaklega niðurstöðu hennar 12. desember 2015 og hét hollustu íslenskra stjórnvalda við markmið Parísarsamkomulagsins. Nú hefur SDG snúist hugur um gildi þess að elta þessi markmið.
  4. Árið 2019 samþykkti alþingi tillögu um að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en í honum felst krafa um að starfrækt sé sjálfstæð eftirlitsstofnun með mannréttindum. Tillögu um þetta samþykkti Bergþór Ólason. Nú kannast þingflokkur Miðflokksins ekkert við efni þessarar samþykktar og er andvígur mannréttindastofnun.
  5. SDG spurði 16. maí 2024 á alþingi, hneykslaður yfir för Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur til Georgíu, hvort hún hefði lýst afstöðu ríkisstjórnar Íslands til pólitískra átaka þar og þetta væri eitthvað sem við gætum átt von á, að ráðherrar landsins tækju þátt í mótmælum í öðrum löndum. Í mars 2014 var SDG forsætisráðherra þegar hann lýsti velþóknun á för utanríkisráðherra og flokksbróður síns, Gunnars Braga Sveinssonar, á Sjálfstæðistorgið í Kyiv til stuðnings mótmælum gegn Rússum.

Dæmin fimm lýsa tvöfeldni SDG og þar með Miðflokksins. Það er leit að íslenskum stjórnmálamanni sem á skrautlegri feril að þessu leyti en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vilji menn fá köttinn í sekknum með atkvæði sínu er skynsamlegt að velja Miðflokkinn.