5.11.2017 10:42

Tvöfeldni í þágu vinstri stjórnar

Afstaðan til „neikvæðra auglýsinga“ minnir á tvöfeldnina í afstöðunni til skjala sem lekið er til fjölmiðla. Annars vegar er „góður leki“ á gögnum um fjármál einstaklinga og hins vegar „vondur leki“ vegna afgreiðslu á máli hælisleitenda.

Gauti Eggertsson, prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum, birtir grein á vefsíðunni Eyjunni laugardaginn 4. nóvember sem hefst á þessum orðum:

„Það kemur mér skemmtilega á óvart að sjá að nú er verið að reyna að myndi stjórn frá miðju til hægri á Alþingi. Ég satt best að segja bjóst ekki við þessu og er ennþá bara hóflega bjartsýnn. En svo virðist sem Sigurður Ingi og Lilja Dögg séu að taka Framsóknarflokkinn aftur til þess að vera víðsýnn miðjuflokkur, sem getur unnið hvort heldur til hægri eða vinstri, en það þarf að leita ansi langt aftur í söguna til að finna flokkinn á þeim stað (Steingrímur Hermannsson og Alfreð Þorsteinsson koma upp í hugann).“

Fyrsta setningin er sérkennileg, að líkindum hefur höfundur ætlað að segja „frá miðju til vinstri“ því að varla lítur hann á stjórn með VG, Samfylkingu og Pírötum sem hægri stjórn þrátt fyrir aðild Framsóknarflokksins. Verði af því að þessi hluti Framsóknarmanna gangi í vinstri björgin er það í fyrsta sinn síðan á níunda áratugnum undir forystu Steingríms og árið 1994 gerðist Alfreð ráðamaður innan R-listans sem laut forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr Kvennalistanum.

Ingibjörg Sólrún vill nú að Viðreisn verði aðili að vinstri stjórninni. Lýsti hún þeirri skoðun á FB-síðu sinni föstudaginn 3. nóvember. Telur hún að það auki vægi miðjunnar á móti vinstri flokkunum eða „gargandi vinstri flokknum“ eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kallaði Samfylkinguna í síðasta leiðtogaþættinum fyrir kosningar.

Gauti ber lof á R-listann og styður það með rangfærslum um stjórn Sjálfstæðismanna á Reykjavíkurborg t.d. með fullyrðingum um að þeir hafi látið undir höfuð leggjast endurnýja eða setja upp holræsakerfi í borginni. Þetta er sama lygin og leitast var við að breiða út sl. sumar þegar mengunarslysið mikla varð við strendur borgarinnar og beita átti þöggun til að leyna því. Hann skautar fram hjá skuldasöfnun R-listans sem enn er haldið áfram á þann veg að engin fordæmi eru fyrir slíku ráðleysi við stjórn borgarinnar. Krafan um aukin útgjöld einkennir viðræður flokkanna sem nú reyna myndun ríkisstjórnar. Reykjavík undir stjórn þeirra er víti til að varast.

Málflutningur Gauta er einfeldningslegur eins og þegar hann segir:

„Hvernig má það vera að einhver sýslumaður útí bæ geti sett lögbann á fjölmiðil rétta [svo!] fyrir kosningar án þess að slíkt komi til kasta dómstóla (ég get ekki ímyndað mér að nokkuð slíkt gæti til dæmis gerst hérna í Bandaríkjunum).“

Af samhenginu í greininni má ráða að Gauti telji sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu óþarft embætti sem eigi að fjúka í stjórnsýslulegri umbyltingu sem hann vill sjá. Í því tilviki sem um er að ræða varð sýslumaðurinn við kröfu um lögbann, síðan er látið á réttmæti ákvörðunarinnar reyna fyrir dómstólum. Að segja að sambærilegir hlutir geti ekki gerst í Bandaríkjunum er rangt. Nýleg eru dæmin um ákvarðanir Bandaríkjaforseta um bann við komu fólks frá ákveðnum löndum til landsins sem síðan hefur reynt á fyrir dómstólum. Þá segir Gauti:

„Almennt þá þarf bersýnilega að endurskoða lög um umgjörð fjölmiðla og stjórnmála almennt, til dæmis er ekki heilbrigt eins og í ljós kom fyrir síðustu kosningar að hægt sé að fara framhjá lögum um fjármögnun kosningabaráttu með því að stofna félög sem enginn veit hver stendur á bak við og dæla út neikvæðum auglýsingum í gegnum facebook og youtube.“

Þarna er greinilega boðuð ritskoðun af einhverju tagi. Ætlunin er að koma í veg fyrir að menn noti netið til að miðla „neikvæðum auglýsingum“. Erfitt er að átta sig á hver er vandinn – er það að menn birta efni á netinu án þess að getið sé hver er höfundur þess? Eða hver kosti birtinguna? Bandaríska kosningabaráttan þrífst á neikvæðum auglýsingum, þær verða til dæmis aldrei bannaðar þar. Af hverju vill Gauti að þær séu bannaðar hér?

Sérkennilegt er að þeir sem hneykslast mest á lögbanni á Stundina og rannsókn héraðssaksóknara vegna kæru fjármálaeftirlitsins á leka upplýsinga til fjölmiðla á gögnum undir bankaleynd skuli í hinu orðinu varla ná upp í nefið á sér vegna reiði yfir birtingu „neikvæðra auglýsinga“ sem sumar eru einskonar klippimyndir um störf og stefnu vinstri flokkanna. Hefur ekki Lára Hanna Einarsdóttir rutt brautina við gerð slíkra klippimynda við mikinn fögnuð vinstrisinna?

Afstaðan til „neikvæðra auglýsinga“ minnir á tvöfeldnina í afstöðunni til skjala sem lekið er til fjölmiðla. Annars vegar er „góður leki“ á gögnum um fjármál einstaklinga og hins vegar „vondur leki“ vegna afgreiðslu á máli hælisleitenda.