10.3.2022 10:53

Tvöfeldni Fréttablaðsritstjóra

Hér ættu þeir sem enn burðast með NATO-óvild kalda-stríðs-áranna á bakinu að kasta úreltum byrðum af sér og stilla sig inn á samtímann að þýskri fyrirmynd.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, veitist í dag (10. mars) að vinstri-grænum (VG) fyrir að fórna stefnu sinni gegn NATO-aðild og varnarsamstarfinu við Bandaríkin fyrir ráðherrastólana.

Þar sem Katrín Jakobsdóttir brjóti ekki upp ríkisstjórnina sem hún stýrir sé „endanlega komið í ljós að andstaða [VG] við heri og hernaðarbandalög er ekki meiri en svo að hún skiptir ekki máli þegar á hólminn er komið“.

Ritstjóranum finnst goðgá að réttlæta setu VG í ríkisstjórninni nú „sem svo að ef utanaðkomandi hætta steðjar að landi og lýð skuli stefnumál flokksins víkja“.

Að taka þjóðarhag fram yfir flokksstefnu telur ritstjórinn „fórnfýsi af hæstu gráðu íslenskra stjórnmála“. Hann afsakar þetta að vísu með þeim orðum að þetta sé „ekkert annað en íslensk pólitík, hæfilega laus við grundvallarafstöðu – og nægilega mjúk til þess að láta skeika að sköpuðu ef tækifærið er stærra en málefnin sjálf“.

Ce96ccd61308c9af8d28dbaf39ef3fa9Flokksstefna á að vega þyngra en þjóðarhagur. Ritstjórinn segir að það sé til marks um „þann agalausa íslenska hugsunarhátt að geta bæði verið með og á móti án þess að það róti nokkru upp í huga manns“.

Orð ritstjóra Fréttablaðsins um að það sé til marks um „agalausan íslenskan hugsunarhátt“ og þar með ámælisverða íslenska sérstöðu að stjórnmálamenn og flokkar skipti um skoðun í þágu þjóðarhags vegna innrásar Pútins stenst ekki.

Skýrasta dæmið er frá Þýskalandi þar sem forystumaður ríkisstjórnar þriggja flokka sem mynduð var um svipað leyti og annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur í fyrra sneri alveg við blaðinu í öryggis- og orkumálum vegna Úkraínustríðsins. Menn eru enn að átta sig á þáttaskilunum sem urðu með 30 mínútna ræðu jafnaðarmannsins Olafs Scholz kanslara á aukafundi þýska þingsins sunnudaginn 27. febrúar 2022.

Hér ættu þeir sem enn burðast með NATO-óvild kalda-stríðs-áranna á bakinu að kasta úreltum byrðum af sér og stilla sig inn á samtímann að þýskri fyrirmynd.

Í kaldhæðnum leiðarabúti vegur Sigmundur Ernir síðan að Dönum. Hann gagnrýnir að þeir hafi samið um miklar undanþágur við aðild sína að ESB fyrir hálfri öld og nefnir þar fyrirvara vegna aðildar að varnarsamstarfi ESB. Slíkt samstarf var alls ekki á dagskrá þá heldur dönsk fyrirstaða gegn því að Þjóðverjar gætu hindrlunarlaust keypt land undir sumarhús á Jótlandi. Undanþágan sem Danir fengu þá hefur verið haldreipi ESB-aðildarsinna hér þegar þeir mæla með einskonar undanþágu-samningi Íslands og ESB.

Fyrirvarann vegna ESB-varnarsamstarfsins fengu Danir árið 1992 þegar þeir höfnuðu evrunni og Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir nokkrum vikum sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra að ekki kæmi til álita að fella þennan fyrirvara á brott. Hún skipti hins vegar snarlega um skoðun eins og flokksbróðir hennar Þýskalandskanslari. Er boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um brottfellinguna 1. júní 2022 í Danmörku.

Eigi jafnaðarmenn í Þýskalandi og Danmörku hlut að máli finnst Sigmundi Erni það líklega sjálfsögð „fórnfýsi“ að afneita flokkstefnu fyrir þjóðarhag. Geri VG það hér vill ritstjórinn að gera það að aðhlátursefni. Sérkennileg tvöfeldni.