27.11.2023 11:49

Tvö óupplýst pólitísk mál

Hitt málið snýr að Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanni Pírata. Hún var handtekin á föstudag eftir að hafa verið of lengi inni á salerni á skemmtistaðnum Kiki.

Í tveimur pólitískum fréttum á bls. 2 í Morgunblaðinu í dag (27. nóv.) er ekki öll sagan sögð.

Í fjölbýlishúsinu við Bríetartún 9 til 11 (áður Skúlagata) er stór hluti íbúða notaður undir skammtímaleigu til ferðamanna. Þar eru 29 íbúðir í eigu SIF Apartments sem á þar nýlegar nútímalegar íbúðir, hannaðar í minimal-stíl.

Í frétt blaðsins segir að 2018 hafi umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar samþykkt undir formennsku Hjálmars Sveinssonar (Samfylkingu) að hafna tilmælum um gistileyfi fyrir 34 íbúðir við Bríetartún 9-11 en 94 íbúðir séu í húsinu. Nokkru síðar voru gistileyfin hins vegar veitt.

Hjálmar Sveinsson situr enn í umhverfis- og skipulagsráði. Þegar blaðamaður spyr hann um þetta mál segir Hjálmar: „Ég er mjög hissa...“ Þetta sé slæm þróun. Þetta hafi gerst án sinnar vitundar: „Ég vissi ekki að þessu hefði verið snúið við og ég tel það miður. Mér finnst mikilvægt að það sé lögð öll áhersla á að byggja íbúðir fyrir fólk sem býr hér og starfar.“

Það er efni fyrir rannsóknarblaðamann að komast að því hvernig í ósköpunum tókst að breyta samþykkt í ráði borgarinnar þar sem Hjálmar Sveinsson situr án þess að hann viti af breytingunni. Var farið á bak við borgarfulltrúann af ásettu ráði eða sinnir hann ekki starfi sínu af nægilegri alúð? 

Björn Axelsson skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar segir að ákvörðunin um að veita gistileyfið hafi verið tekin af skipulagsyfirvöldum borgarinnar. „Það var metið á þessum tíma að þetta ætti að ganga upp hvað þennan reit varðar,“ segir Björn. Hvar var Hjálmar þá?

1413920Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata (mynd:mbl./Eggert Jóhannesson).

Hitt málið snýr að Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanni Pírata. Hún var handtekin á föstudag eftir að hafa verið of lengi inni á salerni á skemmtistaðnum Kiki. Dyraverðir brutust inn á salernið en á Facebook segir hún að sér hafi þótt framganga þeirra hafa verið „óþarflega harkaleg og niðurlægjandi“. Síðar hafi „fyrirsvarsmaður staðarins“ beðið hana afsökunar.

Þykir Arndísi Önnu „afar vænt“ um það og einnig hve lögregla brást snöggt við útkalli frá staðnum vegna hennar og segist hún „þakklát lögreglunni fyrir þeirra viðbrögð og fagmennsku, og fyrir alúðina sem þau sýndu mér í kjölfarið“ enda hafi hún komist „í talsvert uppnám við þessar aðfarir“.

Þeir sem lesa þessa frásögn þingmannsins hljóta að spyrja hvort þarna sé öll sagan sögð. Sé kallað á lögreglu af því tilefni sem þarna er lýst á stað þar sem dyraverðir halda uppi eftirliti sýnir það ótrúlega lítið áfallaþol veitingamanns.

Bæði hafa þau atvik sem hér er lýst pólitíska hlið. 

Samskiptaæðar innan meirihlutans í borgarstjórn eru greinilega bilaðar. Bitnar feluleikur þar á fleiri málum borgaranna? 

Staða Arndísar á alþingi kemur til kasta þingflokks Pírata. Nýtur hún áfram trausts innan hans? Píratar á þingi hafa að vísu sætt sig við að þingflokksformaðurinn, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hafi siðareglur þingmanna að engu. Nær umburðarlyndið einnig til Arndísar Önnu?