Tveir vantreysta þingræðinu
Þótt orðið forsetaræði kæmi ekki fyrir í samtali Arnars Þórs og Stefáns Einars verður ekki önnur ályktun dregin af því en frambjóðandinn boði forsetaræði á Íslandi í stað þingræðis.
Þingræði er grunnþáttur íslenskrar stjórnskipunar. Þingræðisreglan felur í sér að meirihluti alþingis þurfi að styðja eða að minnsta kosti sætta sig við ráðherra í embætti.
Þingræðisreglan er ekki orðuð beint í stjórnarskránni. Hún er reist á stjórnskipunarvenju og er því jafn rétthá ákvæðum stjórnarskrárinnar sjálfrar, henni verði því ekki breytt eða hún afnumin nema með stjórnarskrárbreytingu.
Alþingi er ekki aðeins aðalhandhafi löggjafarvaldsins. Þingið ræður einnig miklu um landstjórn og stjórnarstefnu, t. d. með því að hafa stjórn á fjárreiðum ríkisins og annast eftirlit með framkvæmdarvaldinu.
Í þættinum Spursmál á mbl.is 24. maí sagði forsetaframbjóðandinn Arnar Þór Jónsson við Stefán Einar Stefánsson spyrjanda:
„Þingræðið sem allir forsetaframbjóðendur tönnlast á hérna er auðvitað dýrmætt en ég tel að það sé að víkja hér á Íslandi fyrir því sem ég kalla ráðherraræði.“ Frambjóðandinn rifjaði upp að hann hefði komið inn á alþingi sem varaþingmaður en kynni hans af þingstörfum hefðu leitt til þess að hann aðhylltist ekki það sem hann kallaði „taktgönguræfilshátt“ þingmanna í þágu embættismanna.
Stefán Einar Stefánsson ræðir við Arnar Þór Jónsson í Spursmálum mbl.is 24. maí 2024.
Þótt orðið forsetaræði kæmi ekki fyrir í samtali Arnars Þórs og Stefáns Einars verður ekki önnur ályktun dregin af því en frambjóðandinn boði forsetaræði á Íslandi í stað þingræðis og hann telji sig hafa heimild til að stjórna í þeim anda hvað sem líði ákvæði stjórnarskrárinnar um þingbundna stjórn og hefðbundinnar túlkunar á því.
Frambjóðandinn taldi meðal annars að forseti gæti lagt fram frumvarp til laga á alþingi og ekki yrði vandkvæðum bundið að fá ráðherra til að flytja slíkt frumvarp. Þá gæti hann notað ríkisráðsfundi til að setja ofan í við ráðherra og hafna tillögu forsætisráðherra um einstaklinga í ráðherraembætti.
Frambjóðandinn sló þó þennan varnagla: „Ég er ekki að bjóða mig fram til þess að vera einvaldur eða einræðisherra.“ Hann lítur á forsetaembættið sem „mótvægi og aðhald“ gegn alþingi. Hætta sé á að íslenska lýðveldið líði undir lok komist hann ekki til valda og geti stjórnað með vísan til þess að nú séu hér „óvenjulegar aðstæður“.
Allt er þetta með nokkrum ólíkindum en frambjóðandinn segir að beiting Ólafs Ragnars Grímssonar á ákvæðum 26. gr. stjórnarskrárinnar árið 2004, þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar, hafi opnað nýja gátt við túlkun og framkvæmd stjórnarskrárinnar. Nýir tímar krefjist nýrra lausna.
Hér var fimmtudaginn 23. maí sagt frá viðtali við annan forsetaframbjóðanda, Eirík Inga Jóhannsson, í ríkissjónvarpinu sem einnig boðaði fráhvarf frá þingræðisreglunni, næði hann kjöri. Hann hafði ekki frekar en Arnar Þór neitt álit á alþingismönnum og sagði stjórnmálaflokka ekkert annað en sérhagsmunasamtök sem berðust fyrir sínum skjólstæðingum.
Kjósendur sem vilja forsetaræði í stað þingræðis og þar með gjörbylta stjórnarháttum lýðveldisins Íslands geta valið á milli tveggja frambjóðenda 1. júní 2024: Arnars Þórs Jónssonar og Eirík Inga Jóhannssonar.
Eiríkur Ingi hafnar einfaldlega þingræðisreglunni, það er að engin ríkisstjórn sitji nema meirihluti á alþingi styðji hana. Hann vill með öðrum orðum hverfa aftur til einhvers konar einveldis.
Fréttamaður ræddi við Eirík Inga eins og umræðurnar snerust um embætti forseta Íslands en svo var alls ekki. Þarna var á borð borinn hugarburður frambjóðanda og látið eins og þeir sem greiddu honum atkvæði væru að velja mann í embætti forseta Íslands þegar tilgangur hans er að misnota embættið og stofna til stjórnlagakreppu.
Að óreyndu hefði mátt ætla að meiri gæðakröfur yrðu gerðar til kosningaefnis ríkismiðilsins en birtist í hugarleikfiminni sem er á borð borin í Forystusætinu.