Tveir ólíkir kostir við endurreisn
Ólíkari kostir um leið út úr efnahagsvandanum og til að styrkja þjóðarbúskapinn eru vandfundnir.
Þegar unnið var að gerð skýrslunnar um EES-samstarfið í 25 ár kom margt á óvart máli þeirra 147 einstaklinga sem við hittum hér heima og erlendis. Allir voru þessir fundir, nema einn, með því fororði að ekki yrði vísað beint til þess sem viðmælendur okkar sögðu heldur nýttum við efnið sem bakgrunn þess sem við birtum.
Eitt af því sem situr hvað skýrast í huganum eru lýsingar þeirra sem unnu að rannsóknum og vísindum á árunum fyrir og eftir EES-aðildina. Þau lýstu gjörbreytingunni sem varð á starfsumhverfi þeirra með auknum fjármunum til stuðnings þeim verkefnum sem að var unnið.
Þessar lýsingar urðu meðal annars til þess að ég segi í formála skýrslunnar sem kom út 1. október 2019:
„Við aðildina að EES tók íslenskt þjóðfélag stakkaskiptum. Að fara í samanburð á því sem var og er nú kallar á mun víðtækari úttekt á þróun íslensks samfélags en starfshópurinn hafði tök eða tíma til að gera. Raunar má draga í efa að þjóni nokkrum tilgangi að hverfa til veraldar sem var þegar breytingar eru jafnróttækar og hér er lýst.“
Minningin um þetta vaknaði þegar ég las grein í Fréttablaðinu í morgun eftir Finn Oddsson, forstjóra Origio, Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, forstjóra hjá Marel, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP, og Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar undir fyrirsögninni: Bjart framundan í nýsköpun á Íslandi.
Í lok greinarinnar segir:
„Marel, Össur, CCP og Origo eru gjörólík en eiga það sameiginlegt að hafa verið byggð upp á hugviti, sem er jafnframt þeirra helsta auðlind. Aðgerðir stjórnvalda nú skapa rétta hvata og auka líkurnar á því að hér á landi byggist upp fleiri burðug hugverkafyrirtæki, með tilheyrandi fjölgun starfa og verðmætasköpun.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru fjárfesting í fólki, hugviti og þekkingu og öflug virkjun á sköpunarkrafti Íslendinga sem hefur svo oft reynst vel á erfiðum tímum. Aðgerðirnar koma til með að gera íslenska hagkerfið samkeppnishæfara á alþjóðavettvangi en það sem skiptir þó líklega mestu máli er að hvatarnir sem aðgerðirnar mynda munu leiða til nýrra verkefna á Íslandi, nýrra fyrirtækja, nýrra starfa, aukinnar fjárfestingar og meiri gjaldeyristekna til framtíðar. Það er því bjart fram undan í nýsköpun á Íslandi. Um það erum við sannfærð.“
Þarna er vísað til aðgerða ríkisstjórnarinnar sem boðaðar hafa verið til að efla nýsköpunarumhverfið hér á landi. „Þær skapa von um bjartari tíma,“ segja greinarhöfundar og vitna til ummæla Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um „Íslans 2.0“ sem beri „þess merki að til standi að skapa forsendur fyrir öflugri efnahagslegri viðspyrnu á grund- velli hugvits og þekkingar“.
Sama dag og þessi bjartsýnisgrein birtist í Fréttablaðinu skrifar Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, grein (enn eina) í Morgunblaðið um nauðsyn þess að „fjölga hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, kennurum, skólaliðum, löggum, barnaverndarfólki, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum, vísindamönnum og fleiri opinberum starfsmönnum“ til að auka verðmætasköpunina og sporna gegn nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar.
Ólíkari kostir um leið út úr efnahagsvandanum og til að styrkja þjóðarbúskapinn eru vandfundnir.