11.6.2021 8:11

Tvær hliðar Samfylkingarinnar

Sérkennilegt við umræðurnar hér er sveiflan í afstöðu Samfylkingarinnar eftir því hvaða fyrirtæki á í hlut.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, flutti ræðu undir liðnum „störf þingsins“ miðvikudaginn 2. júní. Snerist hún „framgöngu forsvarsmanna fyrirtækisins [Samherja] gagnvart lykilstofnunum samfélagsins“. Fyrirtækið hefði meðal annars krafist þess með bréfi að menntamálaráðherra gæfi skýringar á ummælum sínum í ræðustól þingsins.

Hún sagði stóra málið „að við [yrðum] „með einhverjum hætti að geta tekist á við svona framgöngu sem samfélag“. Það yrði að tryggja „vernd fjölmiðlafólks betur gegn ágangi stórfyrirtækja og tryggja nægjanlegar fjárheimildir til lögreglu, saksóknara og annarra eftirlitsstofnana til að hefja rannsókn ef upp kemur grunur um refsivert athæfi“. Hún sagði „kerfið okkar“ yrði „nefnilega að virka og löggjafinn“ yrði „að veita starfsfólki grunnstofnana samfélagsins vernd fyrir svona ásókn“.

Rósa Björk krafðist auðmýktar af Samherja, ríkari ástæða en ella væri fyrirtækið að sýna auðmýkt vegna þess að það hefði heimild til að nýta auðlind sem væri í „eigu þjóðarinnar allrar“. Slík fyrirtæki yrðu „líka að standa undir meiri kröfum en aðrir til samfélagslegrar ábyrgðar“. Vinna í sátt við samfélagið, fylgja lögum og reglum „og ekki bara að greiða fullt gjald til eigandans fyrir nýtinguna heldur líka sýna eigandanum, sem er íslenskt samfélag, virðingu og auðmýkt“.

Shutterstock_1643544481-807x455-cFingri er víða beint að stórfyrirtækjum.

Í þessa veru er talað um stórfyrirtæki um heim allan. Má til dæmis ekki segja að netheimar séu sameign okkar allra, mannkynsins alls? Nú er hvarvetna leitað leiða til að koma böndum á „big tech“-fyrirtækin – eða Tech Giants, tæknirisana fimm, Amazon, Apple, Facebook, Google og Microsoft. Fyrirtækin sem hagnast mest á nýtingu nýrrar tækni og netheima. Málaferlin eru óteljandi og jafnframt tilraunir til að koma á fyrirtækin skattaböndum, nú síðast af G-7-ríkjunum.

Sérkennilegt við umræðurnar hér er sveiflan í afstöðu Samfylkingarinnar eftir því hvaða fyrirtæki á í hlut. Á tíma Baugsmálsins töluðu þingmenn Samfylkingarinnar á allt annan veg en Rósa Björk talar núna. Þá býsnuðust þeir yfir hverri krónu sem rann úr ríkissjóði til að standa straum af rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á málefnum Baugs. Þeir vorkenndu einnig eigendum Baugs vegna þess kostnaðar sem þeir urðu að bera til að standa undir vörn sinni. Baugsmenn þurftu ekki að skrifa bréf til ráðherra til að krefja hann skýringa á orðum sínum í þingsal. Þingmenn Samfylkingarinnar sáu um að ganga hart að ráðherrum í þágu Baugsmanna. Her álitsgjafa og Baugsmálgagnið Fréttablaðið auk annarra miðla fyrirtækisins sá um allt sem sneri að fjölmiðlun og þótti þá fáheyrður dónaskapur að ráðherra leyfði sér að nota orðin Baugsmiðill eða Baugspenni. Var þá rokið upp til handa og fóta af svipaðri hneykslun og sækir nú á marga vegna þess að Samherji nýtir sér netið og nýja margmiðlunartækni vegna þess sem fyrirtækið telur óvandaðan fréttaflutning.

Um hve ótrúlega langt var gengið til varnar Baugi á stjórnmála- og fjölmiðlavettvangi má lesa í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi frá 2011. Þá settu embættismenn sig ekki í kvörtunarstellingar vegna árása fjölmiðlamanna eða kröfðust sérstakrar lögverndar. Síðan eftir kollsteypuna í hruninu var látið eins og allt eftirlit hefði skort!