29.2.2024 9:10

Tryggja verður borgurunum EES-rétt

Með ákvæði í lögunum um fæðingarorlof er íslensk kona sem var farandlaunþegi og nýtti sér réttinn til frjálsrar farar svipt rétti til bóta sem aðild Íslands að EES veitti henni.

Hæstiréttur felldi miðvikudaginn 28. febrúar dóm í máli sem sneri að rétti íslenskrar konu til fæðingarorlofs en hún taldi gengið á þann rétt sinn sem tryggður væri með EES-samningnum. Konan hafði verið búsett og starfandi í Danmörku á 12 mánaða viðmiðunartímabili sem lauk sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Þar sem hún hafði ekki haft neinar tekjur hér á landi á tímabilinu voru henni ákvarðaðar lágmarksgreiðslur samkvæmt þágildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins fyrir héraðsdómi sagði að reikna bæri viðmiðunartekjur launþega, vegna starfstímabils í öðru EES-ríki, út frá áætluðum tekjum launþega í sambærilegri stöðu og með sambærilega starfsreynslu og hæfi og launþegi í því ríki þar sem sótt væri um bæturnar.

Hæstiréttur tók fram að þótt ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins væru ekki bindandi að íslenskum rétti hefðu þau í réttarframkvæmd verið lögð til grundvallar við skýringu á efni EES-reglna. Að baki því væri sú grundvallarregla EES-samningsins að stuðla að samkvæmni í skýringum á EES-reglum og þar með samræmdri framkvæmd EES-samningsins. Þrátt fyrir þetta yrði að fallast á það með héraðsdómi að Fæðingarorlofssjóður hefði ekki getað virt að vettugi skýr og afdráttarlaus fyrirmæli laga nr. 95/2000 við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til konunnar. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum hennar.

Mynd-domarar-2022Hæstaréttardómrar (mynd: Hæstiréttur).

Þetta mál snertir kjarna umræðunnar um nauðsyn þess að breyta lögunum um EES-samninginn frá 1993 til að tryggja að innan íslenskrar lögsögu njóti menn þess meginmarkmiðs EES-samningsins að allir sitji við sama borð á sameiginlega innri markaði EES-svæðisins.

Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sagði að skylda til að koma í veg fyrir að farandlaunþegar yrðu verr settir við það að nýta sér rétt til frjálsrar farar fæli í sér að bætur til þeirra skyldu vera hinar sömu og þær hefðu verið ef launþegi hefði ekki neytt þess réttar.

Með ákvæði í lögunum um fæðingarorlof er íslensk kona sem var farandlaunþegi og nýtti sér réttinn til frjálsrar farar svipt rétti til bóta sem aðild Íslands að EES veitti henni.

Með bókun 35 við EES-samninginn gekkst íslenska ríkið undir þá þjóðréttarlegu skuldbindingu að búa þannig um hnúta að þessi aðstaða myndaðist ekki í íslenskri lögsögu.

Í fyrra flutti utanríkisráðherra frumvarp til að tryggja réttarstöðu borgaranna betur, það náði því miður ekki fram að ganga. Frumvarpið er enn á þingmálaskrá utanríkisráðherra.

Þessi nýi dómur hæstaréttar knýr enn frekar á um nauðsyn þess að ákvæði EES-laganna tryggi til fulls réttarstöðu þeirra sem vilja nýta sér EES-aðildina í íslenskri lögsögu. Eftir 30 ára gildistíma samningsins er tímabært að þessari óvissu um rétt borgaranna verði eytt. Einsleitni á innri markaðnum er kjarni EES-samstarfsins. Þeir sem leggjast gegn henni eru á móti EES-aðildinni.