Trúverðugleiki Bergþórs
Sé ætlunin með setningunni að telja lesendum trú um að trúverðugleiki eigi við um stjórnmálastarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru orð Bergþórs ekki trúverðug.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, nöldrar eins og venjulega yfir Sjálfstæðisflokknum í grein í Morgunblaðinu í dag (22. nóv.). Nú yfir kosningabæklingi flokksins sem hann segir að fylgt hafi blaðinu í gær. Hann lætur meira að segja hönnun bæklingsins fara í taugarnar á sér en leitar huggunar með þessari setningu: „En á endanum snýst þetta allt um trúverðugleika.“
Sé ætlunin með setningunni að telja lesendum trú um að trúverðugleiki eigi við um stjórnmálastarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins 2009-2016 og Miðflokksins frá 2017, eru orð Bergþórs ekki trúverðug.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason
Sigmundur Davíð var nýorðinn formaður Framsóknarflokksins í ársbyrjun 2009 þegar hann samþykkti að flokkurinn myndi veita minnihlutastjórn Samfylkingar og VG hlutleysi eða stuðning frá 1. febrúar 2009.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands skrifaði mikið um þetta stjórnarsamstarf í dagbók sína og birti kafla úr henni nú fyrir jólin. Þar er stundum minnst á Sigmund Davíð en þess aldrei getið að menn treysti honum eða orðum hans. Hann þótti óútreiknanlegur og strax í mars 2009 segir Steingrímur J. Sigfússon formaður VG við Ólaf Ragnar á einkafundi þeirra að Sigmundur Davíð sé „ekki að gera sig, virkaði jafnvel nokkuð skrítinn“.
Geir H. Haarde segir frá því í æviminningum sínum (bls. 414) að Ólafur Ragnar hafi lagt „mikið kapp á að Framsóknarflokkurinn“ styddi minnihlutastjórnina. Að sögn kunnugra hafi forseti brugðist „mjög illa við þegar hann skynjaði að einhver bilbugur væri kominn á Sigmund gagnvart minnihlutastjórninni og sagði hann ekki geta hlaupið frá fyrra fyrirheiti sínu“.
Segist Geir H. Haarde hafa fengið smáskilaboð frá Sigmundi Davíð á úrslitastundu stjórnarmyndunarinnar og þar hefði formaður Framsóknarflokksins lýst niðurstöðunni á þennan veg „við verjum [stjórnina] eingöngu vantrausti en verðum að öðru leyti í stjórnarandstöðu“. Síðan segir Geir réttilega:
„Hvernig þetta tvennt gat farið saman var auðvitað ráðgáta. Hvað ef Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu teldi ríkisstjórnina gera tóm mistök? Átti þá samt að verja hana vantrausti fram að kosningum?“
Á vorþinginu 2009 studdi Framsóknarflokkurinn minnihlutastjórnina dyggilega. Lengst gekk flokkurinn í baráttunni fyrir breytingu á stjórnarskránni sem miðaði meðal annars að því að færa valdið til breytinga á henni frá alþingi til stjórnlagaþings. Stöðvuðu sjálfstæðismenn þann gjörning með málþófi.
Hér hafa áður verið birt dæmi um hvernig Sigmundur Davíð hefur snúist eins og skopparakringla í málum að eigin hentisemi.
Nýtt dæmi er að Sigmundur Davíð studdi með atkvæði sínu vantraust á meðframbjóðanda sinn fyrir Miðflokkinn, Sigríði Á. Andersen, þegar hún var dómsmálaráðherra en segist nú hafa verið að greiða atkvæði um annað.
Sér er nú hver trúverðugleikinn!