1.10.2020 10:57

Trumpískt orbragð á íslensku

Eitt er að hafa áhuga á átökunum og skipa sér að baki ólíkum frambjóðendum. Annað er að smitast af því hvernig Trump talar um andstæðinga sína.

Á bandarísku vefsíðunni Axios segir að athugun á vegum síðunnar sýni að Bandaríkjamenn nefni einkum þrjú orð þegar þeir eru spurðir um framgöngu Donalds Trumps í kappræðunum við Joe Biden þriðjudaginn 29. september: Ruddi (e. bully), barnalegur ( e. childish) og dólgslegur (e. rude). Um Joe Biden: Slappur (e. weak), forsetalegur (e. presidential) og lélegur (e. poor).

Almenn niðurstaða athugunar Axios er að enginn þátttakandi í kappræðunum geti verið hreykinn af frammistöðu sinni í þeim. Trump hafi þó skaðað sjálfan sig meira en keppinaut sinn með fíflalátum í kappræðunum sem hafi verið verri nú en allar aðrar í sögunni.

Óhlutdræg nefnd setur reglur um framkvæmd kappræðnanna. Hún hefur nú boðað að gerðar verði ráðstafanir til að hindra að yfirbragðið verði oftar eins og það var á þriðjudagskvöldið. Stuðningsmenn Trumps ráðast á Chris Wallace, frá Fox News, stjórnanda umræðnanna í Cleveland í Ohio-ríki, og taka undir þá skoðun Trumps að hann hafi staðið með Joe Biden enda sé hann „skráður“ demókrati. Trumpistarnir segjast ekki sætta sig við að leikreglum kappræðnanna verði breytt heldur verði að sjá til þess að stjórnandi þeirra sé ekki andstæðingur Trumps.

Static-2.politico.comProud Boys í kröfugöngu.

Eitt af atvikunum í kappræðunum sem dregur dilk á eftir sér snertir hægri öfgahópinn Proud Boys sem Trump sagði að ætti að halda sér til hlés en standa þó vaktina. Frá Flórída, ríki þar sem Trump er sagður verða að fá meirihluta til að ná endurkjöri, berast fréttir um að blökkumenn hafni stuðningi við Trump vegna afstöðu hans til Proud Boys, litið er á þá sem málsvara hvítra yfirburða. Miðvikudaginn 30. september reyndi Trump að ýta hópnum út úr pólitísku umræðunni með því að segjast ekki vita neitt um hann. „Ég veit ekki hverjir Proud Boys eru. En hverjir sem þeir eru verða þeir að hafa sig hæga, verðir laganna vinna sín störf.“

Eftir að minnst var á orðaskiptin um Proud Boys hér á síðunni í gær hafa ýmsir lesendur dregið taum þeirra á Facebook. Sýnir það enn og aftur af hve miklum áhuga og í raun innlifun fylgst er með bandarískum stjórnmálum og baráttu á vettvangi þeirra.

Eitt er að hafa áhuga á átökunum og skipa sér að baki ólíkum frambjóðendum. Annað er að smitast af því hvernig Trump talar um andstæðinga sína og temja sér slíkan málflutning sjálfur. Merki um þetta sjást meðal annars á orðbragði Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar stéttarfélags, um þá sem hún er ósammála, orðaval hennar er oft trumpískt.

Miðvikudaginn 30. september skrifaði Aðalheiður Ámundadóttir, vinstrisinnaði leiðarahöfundur Fréttablaðsins, ádeilu á Gylfa Arnbjörnsson, fyrrv. forseta ASÍ, fyrir að andmæla trumpískum málflutningi Sólveigar Önnu og félaga. Í leiðaranum segir Aðalheiður meðal annars:

„Með útspili sínu hefur hann [Gylfi] ekki aðeins fallið í gryfju hrútsins sem telur endalausa eftirspurn eftir sinni lafþreyttu speki, heldur einnig afhjúpað sig sem úlf í sauðargæru.“

Orðalagið er úr smiðju Trumps. Það skaðar ekki þann sem á er ráðist heldur hinn sem grípur til líkinga af þessu tagi.