9.1.2025 10:25

Trump veldur uppnámi á Grænlandi

Staðreynd er að öryggis Grænlands verður aldrei gætt á fullnægjandi hátt án þess að aðstaða til þess sé hér á landi. Hafnir og flugvellir hér gegna lykilhlutverki fyrir hvern þann sem telur öryggi sínu ógnað vegna þess sem gerist á Grænlandi.

Alnöfnunum og feðgunum Donald Trump eldri og yngri tókst þriðjudaginn 7. janúar með einu mesta almenningstengslabragði síðari tíma að sýna öllum heiminum hve mikinn áhuga þeir hefðu á Grænlandi.

Screenshot-2025-01-09-at-10.24.15Donald Trump yngri lendir í Nuuk (skjámynd),

Sonurinn fór til Nuuk í flugvél föður síns og var sem túristi í nágrenni flugvallarins í nokkra klukkutíma. Faðirinn efndi hins vegar til blaðamannafundar í Mar-a-Lago, heimili fjölskyldunnar í Palm Beach í Flórída. Á fundinum útilokaði Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hvorki að beita hervaldi né viðskiptaþvingunum til að ná því fram á Grænlandi sem hann teldi nauðsynlegt vegna þjóðaröryggis Bandaríkjanna.

Danska ríkisstjórnin ákvað að draga andann djúpt og gæta sín á að segja ekki neitt opinberlega, minnug þess að Trump sagði Mette Frederiksen „kvikindislega“ árið 2019 þegar hún taldi hugmynd hans um að kaupa Grænland „fráleita“.

Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra segir nú sem minnst og vill ekki einu sinni viðurkenna að hann glími nú við einhverja erfiðustu diplómatísku krísu í síðari tíma sögu Dana. Forsætisráðherrann segir að málið sé á borði Grænlendinga.

Jafnaðarmennirnir Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og Olaf Scholz kanslari Þýskalands létu orð falla í þá veru að Bandaríkjastjórn yrði eins og stjórnvöld annarra ríkja að virða alþjóðalög og viðurkenndar samskiptareglur ríkja.

Hvað sem líður viðbrögðum í Kaupmannahöfn og meðal evrópskra bandamanna dönsku ríkisstjórnarinnar talar Trump ekki fyrir daufum eyrum í Nuuk þegar hann ber víurnar í Grænland.

Þar verður gengið til þingkosninga í apríl og í áramótaávarpi sínu steig formaður landstjórnarinnar, Múte B. Egede, skref í átt til sjálfstæðis. Verður tekist á um útfærslur þess í kosningabaráttunni nema frumkvæði Trumps verði til að hræða grænlenska stjórnmálamenn frá því. Óbreytt ástand verði talið betra en óvissa í skugga Trumps.

Í umræðunum um framtíð Grænlands kristallast breytingarnar sem við á norðurslóðum höfum lifað undanfarin ár. Hlýnun jarðar hefur breytt öllu viðhorfi til vinnslu auðlinda og siglinga á Norður-Íshafinu. Þetta hefur jafnframt leitt til aukinnar hervæðingar. Stríðið í Úkraínu sýnir að ástæða er til að búa sig undir ófrið vegna ráða yfir auðlindum, land- og hafsvæðum.

Staðreynd er að öryggis Grænlands verður aldrei gætt á fullnægjandi hátt án þess að aðstaða til þess sé hér á landi. Hafnir og flugvellir hér gegna lykilhlutverki fyrir hvern þann sem telur öryggi sínu ógnað vegna þess sem gerist á Grænlandi.

Frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar hefur Bandaríkjastjórn lagt mikla áherslu á eyjarnar í Norður-Atlantshafi vegna heimavarna Norður-Ameríku og Kanadastjórn hefur mótað svipaða stefnu.

Hver er afstaða ríkisstjórnar Íslands til alls þess sem felst í umræðunum um framtíð Grænlands? Svarið við þessari spurningu fæst ekki með því að líta til Evrópu. Það felst í virkri þátttöku við mótun og framkvæmd stefnu um varnir á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi.