13.3.2020 9:40

Trump veldur hruni

Vilji menn kynna sér andstæðu þess sem gerst hefur í nágrannalöndunum í Evrópu undanfarna daga er nóg að líta til Washington.

Áhugamenn um sóttvarnir og stjórnmál hafa nóg af efni til að svala forvitni sinni. Efnt er til blaðamannafunda um heim allan þar sem ríkisoddvitar og sérfræðingar kynna einstökum þjóðum til hvaða ráða ákveðið hefur verið að grípa í því skyni að stemma stigu við kórónaveirunni, COVID-19.

Í fyrrakvöld mátti má danska forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, ásamt heilbrigðisráðherra, læknum og lögreglu skýra stöðu mála í Danmörku. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, var á sambærilegum fundi í gær. Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði frönsku þjóðina í sjónvarpi. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kynnti aðgerðir stjórnar sinnar á blaðamannafundi.

Á Stöð 2 var í gærkvöldi borgarafundur undir stjórn Þóris Guðmundssonar fréttastjóra. Þar sátu Víðir Reynisson, fulltrúi Almannavarna, Alma D. Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fyrir svörum áður en Þórir ræddi við Ásgeir Jónssyni seðlabankastjóra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem fór beint úr sjónvarpssal á ríkisstjórnarfund þar sem teknar voru ákvarðanir um að hrinda í framkvæmd hluta þeirra stefnumála sem forystumenn stjórnarflokkanna kynntu á blaðamannafundi þriðjudaginn 10. mars. Alþingi kemur saman til aukafundar í dag (13. mars) og tekur afstöðu til lagabreytinga sem þarf að gera til að markmið ríkisstjórnarinnar náist.

Gettyimages-1206667167_custom-57c9ad21e52b5654d0de39595b995a92393bf9b8-s1100-c15Donald Trump ávarpar bandarísku þjóðina 11. mars 2020

Íslensk stjórnvöld hafa verið fumlaus í viðbrögðum sínum. Þau vita að efnahagsleg staða þjóðarbúsins er sterk og unnt er að takast á við alvarlegan, tímabundinn fjárhagsvanda án þess að grípa til neyðaraðgerða til að bjarga ríkissjóði. Festan sem Bjarni Benediktsson hefur sýnt undanfarin ár við stjórn ríkisfjármálanna sannar nú enn einu sinni gildi sitt.

Vilji menn kynna sér andstæðu þess sem gerst hefur í nágrannalöndunum í Evrópu undanfarna daga er nóg að líta til Washington þar sem Donald Trump flutti ræðu aðfaranótt fimmtudags 12. mars sem á forsíðu Morgunblaðsins 13. mars er lýst á þennan veg:

„Þetta var dýrasta ræða sögunnar,“ sagði Luca Paolini hjá eignastýringasjóðnum Pictet Asset Management við Financial Times í gær um ræðu Trumps. „Fjárfestar eru að kjósa með fótunum og ég lái þeim það ekki.“

Donald Trump hefur valið aðra leið til að eiga samskipti við bandarísku þjóðina en að ávarpa hana frá skrifborði sínu í Hvíta húsinu. Að hann gerði það vegna COVID-19 töldu margir til marks um að hann ætlaði að boða raunhæfar aðgerðir til að skapa ró í bandarísku þjóðlífi og á fjármálamörkuðum en velgengni þar telur forsetinn til marks um eigið ágæti og stefnu sinnar.

Níu mínútna ávarp forsetans skapaði alls ekki neina ró heldur setti allt á annan endann, ekki aðeins innan Bandaríkjanna heldur víða um heim, ekki síst í Evrópu. Hann lýsti COVID-19 sem „erlendri veiru“ og ferðamenn frá Evrópu hefðu borið hana með sér til nýrra klasa í Bandaríkjunum. Þess vegna setti hann bann við komu Evrópumanna til Bandaríkjanna, þó ekki frá Bretlandi. Engin skýring var gefin á þessu. Í breskum blöðum geta menn sér þess til að skýringin sé ef til vill sú að Trump eigi golfvelli í Bretlandi og á Írlandi. Fyrirsagnir blaða vegna ræðu Trumps voru: „Fjármálamarkaðir falla, ferðabann Trumps á Evrópu skelfir fjárfesta“.