Trump vegur að lýðræðinu
Lýðræðislegar kosningar og virðing fyrir niðurstöðum þeirra er hornsteinn stjórnskipunar lýðræðislanda.
Fyrir meira en hálfri öld tók ég í nokkrum kosningum þátt í starfinu á utankjörstaðakrifstofu Sjálfstæðisflokksins undir stjórn Stefáns Pálssonar. Það er ógleymanleg reynsla og mikið var á sig lagt til að minna fólk á að kjósa, yrði það ekki heima á kjördag, auk þess sem gerðar voru áætlanir og ráðstafanir til að ná til sem flestra kjósenda erlendis. Skipulagðar voru ferðir til kjörstaða í sendiráðum og lögð höfuðáhersla á að tryggja sendingu atkvæðaumslaganna til Íslands, helst beint á utankjörstaðaskrifstofuna til að þar væri unnt að skrá nöfn þeirra sem kusu. Á skrifstofunni var síðan séð til þess að atkvæðin kæmust inn til viðkomandi kjörstjórnar fyrir lokun kjördags. Þá var oft háð spennandi kapphlaup við tímann og leigðar flugvélar til að koma atkvæðum til fjarlægra staða dygðu ekki önnur ráð. Enginn vissi að sjálfsögðu hvað á atkvæðaseðlinum stóð en við gengum út frá því sem vísu að ekki leituðu aðrir til skrifstofunnar en sjálfstæðismenn. Sögusagnir voru þó um að annarra flokka menn hefðu treyst utankjörstaðaskrifstofu D-listans fyrir atkvæði sínu því að þar með væri best tryggt að það bærist á réttan stað á réttum tíma.
Vegna þess hve öflugur þessi liður í kosningastarfi sjálfstæðismanna var litu þeir gjarnan þannig á, þætti þeim óhagstæðar tölur birtar við talningu, að hagur sinni myndi vænkast undir lokin þegar atkvæði greidd utan kjörfundar yrðu talin. Oft skiptu þau miklu á lokasprettinum og gátu ráðið úrslitum.
Atkvæði talin í Bandaríkjunum.
Stofnunin U.S. Elections Project við Flórída-háskóla segir að um 36 milljónir Bandaríkjamanna hafi greitt atkvæði hjá kjörstjórn fyrir kjörfund, en liðlega 65 milljónir með póstatkvæði, alls rúm 101 milljón atkvæða utan kjörfundar. Talið er að á kjördag hafi um 60 milljónir manna farið á kjörstað.
Donald Trump skynjaði snemma að atkvæði utan kjörfundar, svonefnd póstatkvæði, væru sér hættuleg. Hann skipaði trúnaðarmann sinn yfirmann alríkis-póstþjónustunnar og rökstuddur grunur vaknaði að hann ætlaði að spilla fyrir fyrir póstkosningunni. Það tókst ekki og nú kunna þessi atkvæði að ráða úrslitum í kjördæmunum þar sem enn er talið.
Ónafngreindur sjálfboðaliði sem vinnur við talningu í Pennsylvaniu lýsti í samtali við BBC í morgun (6. nóvember) hvernig staðið væri að því að sannreyna gildi utankjörstaðar- eða póstatkvæðanna. Lýsingin kemur alveg heim og saman við það sem ég kynntist við atkvæðatalningu í íþróttasal Austurbæjarskóla á sínum tíma.
Með eigin reynslu og lýsingar frá Bandaríkjunum í huga þykir mér reginhneyksli ef ekki móðgandi að heyra Donald Trump lýsa yfir á blaðamannafundi í Hvíta húsinu að kosningasigri sínum sé stolið með því að telja það sem hann kallar ólögleg póstatkvæði.
Sannar þetta enn skort Trumps til að leggja hlutlægt mat á það sem hann telur snerta eigin hagsmuni. Honum virðist einfaldlega sama um allt nema sjálfan sig. Lýðræðislegar kosningar og virðing fyrir niðurstöðum þeirra er hornsteinn stjórnskipunar lýðræðislanda. Það skiptir Trump engu þegar hann sjálfur á hlut að máli. Talningu atkvæða skal hætt þegar honum hentar!