11.1.2025 10:48

Trump og ESB-aðildarbröltið

Nú er greinilega von norskra ESB-aðildarsinna að ESB-brölt ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur og orð Trumps verði vatn á myllu málstaðar þeirra í Noregi. 

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (11. febrúar) er vitnað í fréttaskýringu um Trump og Grænland í norska blaðinu Aftenposten. Norski höfundurinn lítur til Íslands og segir að Íslendingar „séu þegar farnir að daðra við hugmyndir um inngöngu í Evrópusambandið og Kristrún Frostadóttir hafi heitið þjóðaratkvæði um málið í síðasta lagi árið 2027. Nú gæti farið svo að því yrði flýtt út af Trump,“ svo að vitnað sé í endursögn Morgunblaðsins en leiðarahöfundur þess spyr:

„Hvers vegna hafa Norðmenn áhyggjur af þessu?“ Og svarar að fyrir Norðmönnum sé evrópska efnahagssambandið (EES) í húfi. Norski fréttaskýrandinn velti fyrir sér hvað verði um EES hverfi Íslendingar úr því og segi: „Gangi Ísland í ESB verða bara Noregur og Liechtenstein eftir.“ Leiðarahöfundi Morgunblaðsins finnst þetta að vonum „skrítnar vangaveltur“ Meira þurfi til en yfirlýsingar Trumps um Grænland „til þess að Íslendingar hrökklist í Evrópusambandið, þótt vel geti verið að einhverjir muni reyna slíkar málfundaæfingar fari umræða um aðild á skrið“.

Þegar þessi viðbrögð norska fréttaskýrandans eru lesin er rétt að hafa í huga að Aftenposten hefur jafnan verið málgagn þeirra sem vilja að Norðmenn gangi í ESB. Það er von ESB-stuðningsmanna í Noregi að fyrir þingkosningarnar þar nú í september 2025 takist að kveikja áhuga flokkanna á að setja ESB-aðildarmálið á dagskrá.

Norskir stjórnmálamenn hika við þetta enda eru þeir reynslunni ríkari eftir að þjóðin hefur tvisvar sinnum fellt samninga um aðild Noregs að ESB í atkvæðagreiðslu. Í síðara skiptið 1994 þegar EES-samningurinn hafði verið gerður. Þá var ljóst að hann héldi gildi sínu þótt Norðmenn færu inn í ESB. EES-samstarfið liði ekki undir lok þótt ein EES/EFTA-þjóðanna segði skilið við það. Tal um það er dæmigerður hræðsluáróður.

24867812-nationer-som-usa-storbritannien-og-rusland-opererÞað er ekki tilviljun að nú á spennu- og stríðstímum beinist athygli að öryggi á Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafi. Hér er gömul og óvenjuleg mynd sem sýnir bandarískan kafbát sem hefur brotist upp í gegnum ísinn við Norðurpólinn. Kafbátar eru stöðugt á sveimi undir ísnum.

Nú er greinilega von norskra ESB-aðildarsinna að ESB-brölt ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur og orð Trumps verði vatn á myllu málstaðar þeirra í Noregi. Fyrir nokkrum árum nýttu norskir andstæðingar EES-samningsins þriðja orkupakkann svonefnda til að espa Miðflokkinn hér og aðra til andstöðu við EES. Það var álíka vitlaust og að nota núna Trump og Grænland til að gera ESB-aðild að pólitísku hitamáli í Noregi vegna orða í stjórnarsáttmála Kristrúnar. Vissulega er ekki unnt að útiloka að hér hlaupi ESB-aðildarsinnar nú á þennan norska ESB-vagn og boði okkur að vegna Trumps og Grænlands verðum við að ganga í ESB. Það er dæmt til að mistakast.

Áróður af þessu tagi heldur einfaldlega ekki vatni. Stjórnir Kanada og Bandaríkjanna sýna óskoraðan áhuga á að styrkja öryggis- og friðarkerfið á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi með raunhæfum aðgerðum. Þetta vita Grænlendingar og halla sér þangað. Íslendingum er þetta einnig ljóst.

Ríki ESB geta ekki einu sinni komið sér saman um skilvirk viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu. Þau hafa ekki neina burði til að láta neitt að sér kveða á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Árið 2021 mótuðu Danir norðurslóðastefnu í öryggismálum, hún er enn í dag aðeins orðin tóm þegar litið er til raunhæfra aðgerða.