7.3.2025 10:37

Trump, norðurslóðir og Kína

Að baki Rússum standa Kínverjar og þeir sem leita að rökréttri skýringu á andúð Trumps á Úkraínu og daðri við Pútin segja að Trump vilji ýta Xi Jingping Kínaforseta til hliðar. 

Í öðru orðinu talar ríkisstjórnin um samstöðu með bandalagsþjóðum okkar innan NATO og gildi varnarsamningsins við Bandaríkin. Við þessar grunnstoðir utanríkisstefnunnar verði að leggja rækt. Í hinu orðinu er látið eins og þessar stoðir kunni að bresta og þá virðist plan B vera að ganga í Evrópusambandið.

Sé litið á NATO og varnarsamninginn eru allar vangaveltur um að grunnur samstarfsins hafi brostið reistar á getgátum.

Að það raknaði upp úr NATO-aðildinni og varnarsamningurinn glataði gildi sínu var miklu líklegra fyrir 20 árum en núna. Þá var gildi NATO-samstarfsins rökstutt með afskiptum af ófriði fjarri bandalagssvæðinu. Þá voru stífar viðræður milli fulltrúa stjórnvalda hér og í Washington vegna áforma Bandaríkjastjórnar um að loka Keflavíkurstöðinni og kalla hermenn sína á brott héðan. Það gerðist svo á árinu 2006. Stöðinni var formlega lokað 30. september það ár. Þvert á vilja íslenskra stjórnvalda.

Þegar þeim rökum var hreyft á fundum í bandaríska varnarmálaráðuneytinu að óráðlegt væri að tæma Keflavíkurstöðina alveg var svarið að það væri óþarfi að halda úti hernaðarlegri öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi, rússneski sjóherinn væri gagnslaus og auk þess ætti að líta á Rússa sem samstarfsþjóð, bandamenn NATO-ríkjanna.

Sama dag og síðasti bandaríski hermaðurinn hvarf héðan tóku rússneskar njósnavélar að sýna sig í nágrenni Íslands. Í febrúar 2007 notaði Vladimir Pútin Rússlandsforseti öryggisráðstefnuna í München til að andmæla bandarískri einstefnu á alþjóðavettvangi. Nú er þessi ræða gjarnan nefnd sem upphaf stefnubreytingarinnar sem leiddi til innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022.

Screenshot-2025-03-07-at-10.35.27Morgunblaðið 28. febrúar 2025.

Þótt einkennileg tengsl séu á milli Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Pútins og þeir hafi báðir skömm á sjálfstæði Úkraínu og Volodymyr Zelenskíj forseta er viðhorfið í Washington annað til Rússa nú en það fyrir 20 árum. Nú er ekki litið á þá sem samstarfsaðila, síst af öllu á norðurslóðum. Rússneskar herflugvélar ögra bandaríska flughernum undan ströndum Alaska. Í tali sínu um völd á Grænlandi víkur Trump að gæslu bandarískra öryggishagsmuna vegna ógna frá Rússlandi og Kína.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þá skynsamlegu ákvörðun að loka sendiráði Íslands í Moskvu og setja þak á fjölda rússneskra sendimanna hér á landi. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki boðað neina breytingu í því efni.

Að baki Rússum standa Kínverjar og þeir sem leita að rökréttri skýringu á andúð Trumps á Úkraínu og daðri við Pútin segja að Trump vilji ýta Xi Jingping Kínaforseta til hliðar og minnka tengslin milli Rússa og Kínverja.

Risaveldakeppnin er háð milli stjórnenda Bandaríkjanna og Kína – máttlítill stríðsglæpamaðurinn Pútin þráir að sitja við borðið með Trump og Xi. Það verður ekki. Í þeirra augum er hann forgengilegur.

Vilji íslensk stjórnvöld styrkja stöðu sína gagnvart Trump (og ESB) eiga þau að setja skorður gagnvart Kínverjum – loka njósnastöð þeirra á Kárhóli og leggja til hliðar öll áform um beint flug milli Kína og Keflavíkurflugvallar.