Trump lét NATO-fundinn snúast um sig
Trump er í sífelldri kosningabaráttu og allt sem hann gerir á opinberum vettvangi ber að skoða í því ljósi.
NATO-fundinum í Brussel er lokið þegar þetta er skrifað. Að fylgjast með honum sýndi betur en margt annað hve Donald Trump er slyngur þegar hann leggur sig fram um að beina athygli fjölmiðlamanna að sjálfum sér.
Huti „fjölskyldumyndar“ NATO: Jens Stoltenberg, Donald Trump, Theresa May í fremstu röð frá vinstri. Í annarri röð frá vinstri: Alexis Tsipras, Viktor Órban, Katrín Jakobsdóttir.
Trump er í sífelldri kosningabaráttu og allt sem hann gerir á opinberum vettvangi ber að skoða í því ljósi. Hann hugsar sífellt um eitthvað til heimabrúks. Höfuðmarkmið hans er að missa ekki tengslin við um 15 milljónir kjósenda sinna. Hann veit að fjölmiðlar eru honum almennt fjandsamlegir og þess vegna nýtir hann sér Twitter.
Fyrir NATO-fundinn 11. og 12. júlí birtist hver fréttin eftir aðra um að Trump ætlaði að stilla bandamönnum sínum upp við vegg – menn hefðu séð hvernig hann talaði til Justins Trudeaus eftir G7-fundinn í Kanada.
Trump hafði ekkert tækifæri á lokuðum NATO-fundinum sjálfum til að tala til annarra en fundarmanna. Fyrir fundinn efndi hann því til einka morgunverðarfundar með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, í bústað bandaríska sendiherrans. Lét Trump taka upp stutta ræðu sína yfir Stoltenberg og sendi upptökuna til fjölmiðla. Þar gagnrýndi hann Þjóðverja harðlega fyrir of lág útgjöld til varnarmála og fyrir að ætla að kaupa meira gas af Rússum. Upptakan vakti heimsathygli og varð helsta viðfangsefni fjölmiðlamanna þar til Trump hitti Merkel síðdegis sama dag og fór lofsamlegum orðum um hana og Þjóðverja.
Að morgni seinni fundardagsins vildi Trump „neyðarfund“ um útgjöld til varnarmála. Ekkert var samþykkt á fundinum en Trump vísaði til hans á blaðamannafundi og sagði að þar hefðu orðið þáttaskil og ríki borguðu nú meira til NATO en þegar hann varð forseti eins og Jens Stoltenberg mundi staðfesta, hann væri frábær framkvæmdastjóri NATO enda hefði hann framlengt ráðningartíma hans hjá NATO.
Stoltenberg efndi til blaðamannafundar nokkru síðar og sagði útgjöld annarra NATO ríkja en Bandaríkjanna til varnarmála hafa aukist um 41 milljarð dollara frá því að Trump varð forseti.
Trump lék fjölmiðlaleikinn í Brussel á þann veg að athyglin beindist alltaf að honum. Hann lýsti að lokum eindregnum stuðningi við NATO og sagði dagana í Brussel hafa verið „frábæra“ og að þeim loknum væri NATO mun sterkara en fyrir fundinn.
Nú ættu menn að lesa eða hlusta á allt sem sagt var um að Trump ætlaði til NATO-fundarins til að splundra bandalaginu. Þeir sem þannig töluðu halda áfram að láta eins og Trump vilji í raun grafa undan NATO. Það var ekki og er ekki sannfærandi málflutningur.