18.8.2018 10:37

Trump flokksvæðir öryggisvottun

Donald Trump lítur á öryggisvottun sem einskonar stöðutákn sem sé á sínu valdi að afmá sýnist honum svo.

Fyrir borgarstjórnarskosningarnar í vor voru fluttar rangfærslur um Eyþór Arnalds, oddvita sjálfstæðismanna, á Facebook og tók Guðjón Friðriksson sagnfræðingur þátt í að dreifa þeim. Þetta sýndi að andstæðingar Eyþórs lögðu sig fram um að skoða fortíð hans og taka saman efni sem þeim þótti til þess fallið að vega að honum og grafa undan trausti kjósenda til hans. Þetta er margreynt kosningabaráttu hér og skilar sjaldan þeim árangri sem að er stefnt. Sé ekki farið rétt með staðreyndir snúast vopnin í höndum dylgjusmiðanna og þeir sitja uppi með skömmina eins og gerðist í vor.

Donald Trump Bandaríkjaforseti bregst hart við gegn þeim sem hann telur vega að sér með dylgjum um fortíð sína og ummælum um samskipti hans við aðra, einkum Rússa. Nú hefur hann gripið til nýrra aðgerða til að ná sér niðri á þeim sem hann segir að fari með rangt mál eða hafi staðið ósæmilega að meðferð mála. Sjá hér frétt um að forsetinn beiti sviptingu öryggisvottunar eða hótun um sviptingu hennar til að treysta stöðu sína.

Öryggisvottun e. security clearance snýst um það að óháður aðili leggi mat á hvort treysta megi einstaklingi til að sinna ákveðnu verkefni eða hafa aðgang að ákveðnum upplýsingum.

Þeir sem starfa á alþjóðaflugvöllum þurfa til dæmis öryggisvottun. Sömu sögu er að segja um embættismenn sem sýsla með trúnaðarmál eða sækja fundi þar sem fjallað er öryggis- og trúnaðarmál.

Í Bandaríkjunum tíðkast að láti forstjóra CIA af störfum heldur hann öryggisvottun sinni meðal annars til að geta leiðbeint eftirmanni sínum eða veitt ráð um mál sem sinnt er áfram eftir brotthvarf viðkomandi í starfi.

Data-security_2283310b-21Donald Trump lítur á öryggisvottun sem einskonar stöðutákn sem sé á sínu valdi að afmá sýnist honum svo. Hann stígur því inn á enn eitt svið stjórnsýslunnar og flokksvæðir hana í trú um að það falli kjósendum hans í geð og styrki þannig stöðu hans ­– hann sé með þessu að hreinsa „pyttinn“ í Washington.

Allt er þetta til þess fallið að skerpa andstæðurnar í bandarískum stjórnmálum og grafa undan virðingu fyrir æðstu stofnunum og embættum ríkisins sem er vísasti vegurinn til upplausnar og vandræða. Að Bandaríkjaforseti stuðli að því jafnt á heimavelli og alþjóðavettvangi er ömurlegt.

Snúast stjórnmál í Bandaríkjunum um embættismannakerfið gegn forsetanum en ekki flokk á móti flokki? Sé svo fetar meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur þá braut með því að siga embættismönnum á minnihlutann í borgarstjórn.