8.11.2020 9:26

Trump fékk 71 milljón atkvæða – II.

Hér verður haldið áfram þar sem frá var horfið í gær að endursegja það sem Brendan O'Neill ritstjóri vefsíðunnar spiked birti þar um bandarísku úrslitin.

Síðdegis í gær (7. nóvember) lá ljóst fyrir að Joe Biden yrði 46. forseti Bandaríkjanna. Fjölmiðlar tóku af skarið um það í beinni útsendingu þegar nýjar tölur bárust úr talningu í Pernnsylvaniu. Á CNN grét þeldökkur álitsgjafi stöðvarinnar af gleði og þakklæti fyrir að geta sagt börnum sínum að Donald Trump væri á leið úr Hvíta húsinu. Trump var hins vegar sjálfur að spila golf.

Aðfaranótt sunnudags 8. nóvember að íslenskum tíma ávarpaði Joe Biden þjóðina og hét því að sameina hana sem forseti. Erlendir þjóðhöfðingjar og stjórnarleiðtogar sendu honum heillaóskir en Donald Trump lýsti sjálfan sig sigurvegara á Twitter, hann hefði fengið 71 milljón atkvæða, sigrinum hefði að vísu verið stolið frá sér með svindli. Hann kann ekki að viðurkenna ósigur, vill frekar sundra en sameina.

Hér verður haldið áfram þar sem frá var horfið í gær að endursegja það sem Brendan O'Neill ritstjóri vefsíðunnar spiked birti þar um bandarísku úrslitin 6. nóvember þegar fyrir lá að Donald Trump fengi um 70 milljón atkvæði.

O‘Neill rifjar upp fræg orð Hillary Clinton í forsetakosningunum 2016 þegar hún sagði marga stuðningsmenn Trumps „ömurlega“. Miklu betra orð yfir þá hefði verið „ósigrandi“. Þetta sé fólk sem hafi ekki verið ofurselt boðskap nýrra rétttrúnaðarmanna. Sjötíu milljónir manna sem efni til friðsamlegrar byltingar gegn nýjum ráðandi öflum og sérviskulegri forræðishyggju þeirra. Þetta sé merkilegasti þáttur bandarísku kosninganna og honum verði að sýna alvöru athygli.

Þótt Joe Biden vegni vel einkenni glóandi reiði viðbrögð margra stuðningsmanna hans enda sé hún oft eðlislæg elítunum. Sjá megi merki um reiði gegn því sem talið er meðfæddur rasismi og „hvít yfirburðakennd“ múgsins. Þá sjáist ný-rasísk fyrirlitning í garð fólks af spænskum uppruna og afrískum sem lagði Trump meira lið núna með atkvæðum sínum en árið 2016. „Við erum umsetin af rasistum,“ sagði Charles M. Blow, dálkahöfundur The New York Times, og endurómaði tilfinningu „góða fólksins“. Þótt frambjóðandi elítunnar hafi sigrað reiðist hún fjöldanum fyrir að fara ekki að vilja sínum. Þeir tafsa á orðum eins og „rasisti“ og „hvítur yfirburðasinni“ til að ná sér niðri á milljónunum sem neituðu að krjúpa andspænis hræðslupólitík þeirra og kröfunni um undirgefni innan þess hóps sem þeir skilgreina.

201107-joe-biden-kamala-harris-highlights-1920x1080Joe Biden og Kamala Harris fagna sigri í forsetakosningunum aðfaranótt 8. nóvember,

Elíturnar sem styðja Biden reiðast vegna þess að „bláa bylgjan“ sem þær vildu birtist ekki – flokkslitur demókrata er blár. Kannanirnar og álitsgjafarnir sem sögðu öruggt að Trumpisminn yrði gjörsigraður reyndust illilega úti að aka. Fullyrðingar um 10 stiga sveiflu til Bidens urðu að engu þegar á reyndi. Fylgi Trumps jókst um meira en sjö milljón atkvæði.

Rangt mat elítunnar á hver yrðu úrslit kosninganna segir O'Neill til marks um að henni hafi mistekist að innprenta stórum hluta Bandaríkjamanna hugmyndafræði sína. Margir Bandaríkjamenn hafi greinilega ákveðið að láta ekki uppi skoðanir sínar við könnunarfyrirtækin sem gegni lykilhlutverki fyrir nýju pólitísku fyrirmennin, þessum svarendum sé ljóst að pólitísku elíturnar líti niður á sig. Einn kosningaskýrandi sagði að vegna „magnaðs haturs“ í garð fylgismanna Trumps „í næstum öllum fjölmiðlum“ væri ástandið þannig „að fólk vill ekki segja könnunarfyrirtækjum hvern það styður“. Fólk hafni ekki aðeins boðskap and-Trumpista heldur vilji ekki hafa neitt með þá að gera. Samskipti við þá sé tímasóun. Þannig megi lýsa siðferðilegu og pólitísku gjánni sem myndast hafi milli varðmanna pólitískrar rétthugsunar og milljóna almennra borgara.

Framhald síðar.