6.2.2020 16:07

Trump-dagar í Washington

Trump stendur nú með pálmann í höndunum andspænis höfuðlausum her, hvað sem gerist í kosningunum í nóvember.

Dagana sem Donald Trump flutti þinginu skýrslu sína um stöðu bandaríska þjóðarbúsins, demókratar í Iowa greiddu atkvæði í prófkjöri forsetaframbjóðenda og öldungadeild Bandaríkjaþings hafnaði ákæru fulltrúadeildarinnar á hendur Trump, það er þriðjudag og fram á miðvikudag (4. og 5. febrúar) var ég að frumkvæði Jeffreys Ross Gunters, sendiherra Bandaríkjanna, á Íslandi í Washington.

Tilgangur ferðarinnar var að ræða utanríkis- og öryggismál og hittum við fulltrúa þjóðaröryggisráðsins, varnarmálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og beggja deilda Bandaríkjaþings.

Ég hef oft áður farið í ferðir til Washington og hitt embættismenn og stjórnmálamenn á þessum stöðum.

Á lokaáratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar undraðist ég oft vegna afstöðu manna í Washington til þróunar mála á Norður-Atlantshafi. Hún birtist meðal annars í ákvörðuninni um að loka Keflavíkurstöðinni í september 2006 og hverfa alfarið á brott héðan með allan herafla.

Viðhorfið er allt annað núna enda hefur NATO endurreist Atlantshafsherstjórn sína í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum og Bandaríkjastjórn hefur endurreist 2. flota sinn, Atlantshafsflotann. Enska orðið rotation er lykilorð á vettvangi NATO og í Washington þegar rætt er um hlut Íslands í sameiginlega varnarkerfinu. Orðið má íslenska með orðinu vaktaskipti. Í raun er það sú skipan sem nú ríkir, það er að NATO-ríki skiptast á að senda hingað herafla, flugvélar, stundum til loftrýmisgæslu, stundum til kafbátaleitar. Landhelgisgæslan gegnir lykilhlutverki til að tryggja að þetta sé framkvæmanlegt með gæslu öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli og öllum rekstri innan þess.

Yfirstjórn alls sem hér gerist er alfarið í höndum Íslendinga en ekki með sama skipulagi og áður þegar bandarískur flotaforingi stjórnaði Keflavíkurstöðinni. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða og litið er á framlag landhelgisgæslunnar sem mikilvægan þátt í allri þessari þróun. Íslendingar leggja ekki einungis til land heldur fara með alla stjórn á því sem hér gerist. NATO og einstakar bandalagsþjóðir kosta sjálfar mannvirkjagerð sem tekur mið af breyttum þörfum með samþykki íslenskra stjórnvalda.

Kalla má þessa tvo daga í Washington Trump-daga. Ræða hans í þinginu var einstaklega öflug áróðursræða og flutningur hennar tekur mið að því að gera hana að forvitnilegu sjónvarpsefni. Forsetinn vísar til afreka eða lífsreynslu gesta á þingpöllum og höfðar þannig til einstakra kjósendahópa. Prófkjör demókrata í Iowa klúðraðist og Trump er talinn sigurvegari þess! Hann er svo laus allra mála vegna ákæru demókrata sem snerist einnig í höndunum á þeim eins og Iowa-prófkjörið. Trump stendur nú með pálmann í höndunum andspænis höfuðlausum her, hvað sem gerist í kosningunum í nóvember.

Það tafist dálítið að komast frá borði Icelandair-vélarinnar í morgun vegna roks á Keflavíkurflugvelli, allt fór þó vel að lokum – vélin var ekki nema 5 stundir og 5 mínútur heim en 6 stundir og 15 mínútur til Washington á mánudagskvöldið.

Hér fylgja nokkrar myndir af frægum mannvirkjum í Washington:

IMG_0811Vesturálma Hvíta hússins.

ThinghusidÞinghúsið.

IMG_0819

Hæstiréttur.

Bokasafn

Bókasafn í Executive Office Building við hlið Hvíta hússins.

Kennedy-center

Kennedy listamiðstöðin