6.7.2018 10:08

Tröllaslagur í alþjóðaviðskiptum

Vilja Bandaríkjamenn eyðileggja alþjóðakerfið sem Bandaríkjastjórn hafði forystu um að koma á fót eftir síðari heimsstyrjöldina?

Tröllaslagur er hafinn í alþjóðaviðskiptum. Illindi eru hlaupin í viðskipti Bandaríkjamanna og Kínverja eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að morgni föstudags 6. júlí að leggja tolla á kínverskan varning að verðmæti 34 milljarða dollara. Það stóð ekki á svari frá Peking. Kínversk stjórnvöld sökuðu Bandaríkjastjórn um að brjóta gegn reglum Alþjóðaviðskiptaráðsins (WTO) og hefja „mesta viðskiptastríð efnahagssögunnar til þessa“.

Kínverska viðskiptaráðuneytið sagði: „Til að vernda lykilhagsmuni landsins og hagsmuni þjóðarinnar neyðumst við til að svara í sömu mynt.“ Voru kínverskir tollar lagðir á jafnvirði bandarísks varnings þar á meðal sojabaunir, korn, svínakjöt og kjúklinga.

Sojabaunir eru verðmætasti hluti þess sem bandarískir bændur selja til annarra landa. Kínverjar velja varninginn til að valda sem pólitískum vanda í Bandaríkjunum.

Í fyrra seldu Bandaríkjamenn varning fyrir 130 milljarða til Kína en keyptu fyrir 505 milljarða af Kínverjum, hallinn var 375 milljarðar og til þess vísar Trump. Trump hefur því mun meira svigrúm í viðskiptastríðinu en Kínverjar.

Us-trade-war-with-chinaÁ þessu stigi veit enginn til hvers átökin leiða. Trump og félagar segja forsetann aðeins framkvæma kosningaloforð sín. Vilja Bandaríkjamenn eyðileggja alþjóðakerfið sem Bandaríkjastjórn hafði forystu um að koma á fót eftir síðari heimsstyrjöldina?

Sama dag og allt fer í bál og brand í heimsviðskiptum segir Süddeutsche Zeitung að kínverskir njósnarar hafi reynt að múta þýskum þingmönnum. Njósnararnir sigli undir fölsku flaggi á samfélagsmiðlum til að blekkja þingmennina.

Þýska blaðið segir að líklega starfi meira en ein milljón manna í kínverskum leyni- og njósnastofnunum. Þýska leyniþjónustan hefur hvatt stjórnendur þýskra fyrirtækja til að gæta sín á kínverskum fyrirtækjum sem vilja fjárfesta í hátækni eða kaupa hana.

Iðnaðarnjósnir og stuldur á hugverkum er meðal þess sem Trump vill berjast gegn í viðskiptatríðinu.

Mánudaginn 9. júlí kemur hópur kínverskra ráðherra til Berlínar með Li Keqiang forsætisráðherra í broddi fylkingar. Þýskir fjölmiðlar telja að viðskiptatríðið og efnahags- og iðnaðarnjósnir verði meðal umræðuefna.

Trump berst ekki aðeins við Kínverja því að hann vegur einnig að Angelu Merkel og Þjóðverjum, þeir hagnist um of á viðskiptum við Bandaríkjamenn. Varla mynda þýskir og kínverskir ráðamenn þó bandalag gegn Trump á fundum sínum í Berlín – eða hvað?