9.10.2020 10:46

Torskilin stjórnarskrármál

Í því felst mikil einföldun að halda að val á nýjum hæstaréttardómara verði til þess að rétturinn til fóstureyðinga verði afnuminn í Bandaríkjunum.

Umræður um lögfræðileg málefni taka oft á sig einfaldari mynd en réttmætt er og vekja þar með ranghugmyndir. Þetta blasir til dæmis við í umræðunum um „nýju stjórnarskrána“ hér á landi. Með listgjörningum og undirskriftasöfnunum er nú ýtt undir misskilning um örlög stjórnarskrárhugmyndanna sem voru bornar undir þjóðina haustið 2012. Eftir að þær komu inn á alþingi breyttust tillögurnar og síðan var þeim einfaldlega ýtt til hliðar í mars 2013 með draumsýn um annars konar lausn fyrir 70 ára afmæli lýðveldisins 2014. Hún rættist ekki. Stjórnarskrármálið er í allt öðrum farvegi núna en 2012, þau sem eru enn í 2012-farinu eru bjargarlausar eftirlegukindur.

AbortionColumnHafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild HÍ, birtir grein í Fréttablaðinu í dag (9. október) til að leiðrétta misskilning í leiðara blaðsins frá 22. september um afstöðu bandarískra hæstaréttardómara til fóstureyðinga (þungunarrofs).

Hafsteinn Þór bendir á að íhaldssamir dómarar segi þungunarrof ekki brjóta í bága við bandarísku stjórnarskrána heldur brjóti það í bága við hana að skylda einstök ríki Bandaríkjanna til að afnema lög til höfuðs þungunarrofsaðgerðum. Hann segir:

„Það eru því ekki íhaldssömu dómararnir sem vilja afnema eða ógilda lög. Það eru frjálslyndu dómararnir sem telja rétt að ógilda lög sem einstök ríki Bandaríkjanna setja til höfuðs þungunarrofsaðgerðum, líkt og gert var í dómi hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Roe v. Wade. Í huga íhaldssömu dómaranna snýst málið sem sagt um valdheimildir dómstólsins sem æðsta dómstóls sambandsríkis gagnvart lýðræðislega kjörnum löggjafarþingum í Bandaríkjunum. Málið snýst strangt tiltekið ekki um persónulega afstöðu dómaranna sjálfra til þungunarrofs.“

Dómurinn Roe v. Wade féll í bandaríska hæstaréttinum árið 1973 með 7 atkv. gegn 2. Síðan hefur hann staðið sem fordæmi. Dómurinn felur í sér viðurkenningu á stjórnarskrárvörðum rétti konu til þungunarrofs án óhóflegra afskipta ríkisvaldsins. Inntaki í lögum einstakra ríkja voru þar með settar skorður en ákvörðunin um efni þeirra innan ramma dómsins eru í höndum ríkjanna. Dómurinn hefur valdið deilum í tæp 50 ár en hann staðið þær af sér. Eins og sést af umræðum um skipan nýs hæstaréttardómara núna leiða þær til harkalegs ágreinings um fóstureyðingar.

Í því felst mikil einföldun að halda að val á nýjum hæstaréttardómara verði til þess að rétturinn til fóstureyðinga verði afnuminn í Bandaríkjunum. Engar líkur eru á að til slíkra stórtíðinda dragi. Hvers vegna skyldi Hæstiréttur Bandaríkjanna vilja valda slíku uppnámi og upplausn í þjóðfélaginu?

Dómstólar og dómarar fylgja almennt þeirri meginstefnu í réttarríkjum að setja niður deilur innan ramma laga og reglna. Sé þeim beitt til að brjóta það sem vel hefur gefist, þótt umdeilt sé, bregðast þeir meginhlutverki sínu.