22.11.2017 11:39

Titringur á viðkvæmu stigi stjórnarmyndunar

Á viðkvæmu stigi stjórnarmyndunarviðræðna birtast gjarnan fréttir sem hafðar eru eftir ónafngreindu fólki innan flokkanna sem vinna að myndun stjórnar.

Á viðkvæmu stigi stjórnarmyndunarviðræðna birtast gjarnan fréttir sem hafðar eru eftir ónafngreindu fólki innan flokkanna sem vinna að myndun stjórnar. Ein slík er í Fréttablaðinu í dag um „nokkurn titring“ í flokksráði Vinstri grænna (VG). Aðalheiður Ámundadóttir blaðamaður ræddi við „ nokkra flokksráðsmenn um viðræðurnar og andrúmsloftið í flokknum“.

Í fréttinni um samtöl Aðalheiðar er málið nálgast á neikvæðum forsendum fyrir Katrínu Jakobsdóttur, formann VG. Þar segir: „Mjög skiptar skoðanir eru meðal flokksmanna um stjórnarmyndunarviðræðurnar. Margir eru vonsviknir; treysta forystunni fullkomlega en skilja ekki þetta skref.“

Ætla má að engin jákvæð rödd hafi heyrst. Þá er sagt að þingmenn, fyrrverandi ráðherrar og annað forystufólk í VG hafi haft samband við flokksráðsmenn. Þetta hafi mælst fyrir „með misjöfnum hætti og nokkrir fundið fyrir þrýstingi. Aðrir segjast ekki hafa upplifað símtöl forystunnar sem þrýsting heldur talið að menn vildu aðeins ræða við baklandið, heyra afstöðu manna og taka stöðuna“.

Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins ,tók þessa skemmtilegu mynd af formönnum stjórnarmyndunarflokkanna. Hún birtist á forsíðu blaðsins. Af ljósmyndum að baki Bjarna, Katrínar og Sigurðar Inga má ráða að myndin sé tekin í þingflokksherbergi Framsóknarmanna.

Niðurstaðan í Fréttablaðinu er að mest sé andstaðan í ungliðahreyfingu VG, töluverð andstaða sé meðal elstu félagsmanna VG, á höfuðborgarsvæðinu séu VG-menn „frekar neikvæðari“ en landsbyggðarfólk sem líklega skili sér síst á flokksráðsfundinn í Reykjavík þegar tekin verði lokaafstaða til stjórnarsamstarfs.

Undir lok fréttarinnar segir svo að sumir séu „mjög jákvæðir fyrir stjórnarsamstarfi“ aðrir vilji bíða og sjá niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðnanna, þriðji hópurinn sé fúll á móti. Fréttin endar svo á þessum orðum: „Flestir viðmælenda blaðsins telja þó að málefnasamningur verði samþykktur ef til þess kemur að samningar náist meðal flokkanna.“

Spyrja má eftir lesturinn: Hvert er tilefni fréttarinnar? Fyrirsögn hennar er: Ýmsir hugsi yfir úthringingum forystunnar í flokksráðsmenn. Það er sem sagt meginboðskapurinn að þingmenn, fyrrverandi ráðherrar og forystumenn eigi að láta flokksráðsmenn VG í friði! Tilgangurinn með fréttinni er líklega helst sá að koma illu af stað.

Þór Whitehead, prófessor emeritus, ritaði grein í Morgunblaðið mánudaginn 20. nóvember um að flokksforysta Sjálfstæðismanna hefði ekki nægilega mikið samband við flokksmenn á meðan rætt væri um myndun ríkisstjórnar. Óttast hann að þess vegna verði of mikið gefið eftir gagnvart VG, hættulegt sé að selja forsæti í ríkisstjórn fyrir fjölda ráðherrasæta.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag (22. nóvember) um málamiðlanir milli Sjálfstæðismanna og sósíalista (kommúnista) og hverfur rúm 73 ár aftur í tímann þegar Ólafur Thors myndaði nýsköpunarstjórn Sjálfstæðismanna, Alþýðuflokksmanna og sósíalista nokkrum mánuðum eftir að lýðveldi var stofnað og Þjóðverjar voru á undanhaldi í síðari heimsstyrjöldinni.

Óli Björn leitar þar að röksemdum fyrir stuðningi sínum við það sem nú gerist í stjórnmálunum. Nú eru ekki síður umbrotatímar en þá þótt með öðrum formerkjum sé. Mesta breytingin er að sjálfsögðu að ekki er lengur tekist á við útsendara erlends einræðisríkis sem hafði heimsbyltingu í þágu kommúnismans á dagskrá sinni.

Á tímum alþjóðavæðingar þegar forseti Kína er ákafari talsmaður frjálsra heimsviðskipta en forseti Bandaríkjanna er margt á annan veg en áður var.