1.11.2022 11:06

Tímasetning formannskjörs

Stefanía telur að það hafi verið óskráð regla innan Sjálfstæðisflokksins þar til nú að ekki sé boðið fram gegn formanni flokksins í oddvitasæti hans í ríkisstjórn.

Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir í Morgunblaðinu í dag (1. nóv.) einstætt að formaður Sjálfstæðisflokksins fái mótframboð þegar hann sé jafnframt oddviti flokksins í ríkisstjórn.

„Við höfum engin dæmi um það áður að sitjandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sem er oddviti flokksins í ríkisstjórn, fái mótframboð í formannsembættið. Ríkisstjórnarsamstarfið var endurnýjað í árslok 2021 og tiltölulega stutt liðið á kjörtímabilið og engin krísa komið upp sem kallar á þetta mótframboð,“ segir Stefanía. Hún telur að það hljóti að valda taugatitringi í stjórnarsamstarfinu ef inn kemur nýr formaður Sjálfstæðisflokksins með umboð til að beita sér fyrir nýjum málum sem ekki var samið um upphaflega innan ríkisstjórnarinnar.

Stefanía telur að það hafi verið óskráð regla innan Sjálfstæðisflokksins þar til nú að ekki sé boðið fram gegn formanni flokksins í oddvitasæti hans í ríkisstjórn. Aldrei fyrr hefur sem sagt komið upp sambærileg staða við formannskosningu í flokknum. Bjarni Benediktsson túlkar mótframboðið eðlilega á þann veg að þar sé hvoru tveggja undir flokksformennskan og oddvitasætið í ríkisstjórninni og þess vegna hljóti hann að snúa sér að öðru verði sér hafnað á landsfundinum. Engu er líkara en þetta komi flatt upp á Guðlaug Þór Þórðarson og stuðningsmenn hans. Er þó ótrúlegt að þeir hafi ekki leitt hugann að þessu.

Transfalkiat4x

Í Morgunblaðinu lítur Stefanía Óskarsdóttir rúm 30 ár aftur í tímann máli sínu til stuðnings, eða til þess þegar Davíð Oddsson bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni í aðdraganda þingkosninga árið 1991. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn utan ríkisstjórnar en styrkti stöðu sína og Davíð myndaði stjórn með Alþýðuflokknum að þeim loknum, 30. apríl 1991.

Davíð bauð Þorsteini sæti í henni og varð hann bæði sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra, sat hann í þeim embættum í tvö kjörtímabil, til 1999.

Að Guðlaugur Þór veifi gamla kjörorðinu Stétt með stétt í gunnfána sínum til að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins og þess vegna verði hann að bjóða sig fram núna er ósannfærandi skýring á óvenjulegri tímasetningu. Til að styrkja stöðu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar í lok kjörtímabilsins, 2025, á hann kost á landsfundi 2024. Kristalskúla er óþörf til að geta sér til um að þá kunni Bjarni Benediktsson að draga sig í hlé, hann hefur sjálfur gefið það sterklega til kynna.

Í dag færir Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann, ung sjálfstæðiskona, fyrir því rök á visir.is að bíði Guðlaugur Þór til 2024 kunni hann að þurfa að glíma við nýja kynslóð og þar séu tvær öflugar sjálfstæðiskonur, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Katrín Sigríður segir: „Guðlaugur Þór veit sem er að hans tími er liðinn og að hann á litla möguleika á sigri taki hann slaginn við aðra hvora þessara kvenskörunga.“ , Auðveldara yrði að verja formannsstólinn en að sækja hann. „Þetta er ástæða þess að Guðlaugur Þór fipast og vill ekki ræða málefnalegar áherslur. Hann hefur ekki sýnt að hann hafi burði til að sækja fylgi út fyrir hópinn sinn, líkt og glögglega má sjá ef rýnt er í tölur úr kjördæmi hans - þar sem hann missti þingmann einn oddvita flokksins - og myndir af einsleitum hópi sem sótti framboðsfund hans.“ segir í greininni.