19.2.2021 10:06

Tímabært að gríman falli

Gildi grímanna er kannski helst að þær eru sýnileg áminning um að varúð skuli sýnd í mannlegum samskiptum til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Nú þegar rætt er um hvaða ráð megi nota til að lífga upp á andrúmsloftið og draga úr opinberum fyrirmælum sem gefin hafa verið til að verjast veirunni ætti að létta af skyldu til að bera grímu. Það yrði stórt skref til að breyta ásýnd samfélagsins í orðsins fyllstu merkingu.

Í upphafi faraldursins taldi sóttvarnalæknir engu skipta hvort menn bæru grímur eða ekki. Hann hvatti alls ekki til þess. Viðhorfið breyttist smátt og smátt án þess að skýr fræðileg rök styddu það í smitlausu samfélagi. Sagt er að grímur veiti 15% vörn. Væri um bóluefni með þeim varnarmætti að ræða yrði það talið gagnslaust. Engum dytti í hug að nota það.

Gildi grímanna er kannski helst að þær eru sýnileg áminning um að varúð skuli sýnd í mannlegum samskiptum til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þegar hún finnst ekki með mælingum er þó næsta haldlítið að láta eins og hún sé hvarvetna á sveimi. Það dregur aðeins úr trausti til þeirra sem fyrirmælin gefa.

3-covid19Í forystugrein Morgunblaðsins í dag (19. febrúar) segir:

„Einhvern tímann á liðnu ári féll á blaðamannafundi með þríeykinu spurning um það hvort hægt væri að aflétta öllum hömlum þegar hjarðónæmi væri náð. Svarið var á þann veg að það væri ekki víst.

Á einhverjum tímapunkti hlýtur það hins vegar að verða víst; hlýtur áhættan af því að aflétta að verða minni en skaðinn, sem hlýst af því að halda aðgerðum áfram. Veiran er vissulega skaðleg, en það eru aðgerðirnar gegn henni líka. Því þarf að upplýsa: Hvað þarf til?“

Já, hvað þarf til að gríman megi falla? Nú í dag er til dæmis enn hert á gæslu við landamærin sem á að skapa okkur aukið svigrúm og frjálsræði á heimavelli.

Þeim fjölgar of hægt hér sem fá sprautu gegn veirunni. Við glímum því ekki enn við sama vanda og Ísraelar.

Í Ísrael þróast þjóðfélagið í átt til deildarskiptingar milli bólusettra og óbólusettra. Þróunin hefur leitt til umræðna um lögfræðileg og siðfræðileg álitaefni.

Nú á sunnudaginn geta allir sem hafa verið að fullu bólusettir í Ísrael eða náð sér af veirunni fengið skírteini sem veitir þeim frelsi undan bannreglum sem aðrir verða að hlíta. Um helmingur um níu milljón íbúa Ísraels hefur fengið að minnsta kosti eina Pfizer-bólusetningu og rúmlega 2,6 milljónir tvær. Um tvær milljónir manna, 16 ára og eldri, sem eiga rétt á bólusetningu hirða ekki um hana þrátt fyrir að beitt sé alls kyns aðferðum til að hvetja þá til þess. Að meðaltali smitast um 4.000 manns daglega í Ísrael.

Í The New York Times er haft eftir Yuli Edelstein, heilbrigðisráðherra Ísraels: „Bólusetning er siðferðileg skylda.“ Hann flytur einnig þennan boðskap: „Sá sem lætur ekki bólusetja sig verður skilinn eftir.“

Hér stendur heilbrigðisráðherrann ekki í þessum sporum heldur hinum að enn er allt óljóst um hvenær og hvernig skriður kemst á bólusetningu. Það er furðulegt ástand og enn óútskýrt en ætti þó ekki að standa í vegi fyrir að aflétta grímuskyldunni.