Til varnar Víkurkirkjugarði
Í orðum ráðherrans felst mikil virðing fyrir því sem í hvatningu okkar segir. Verður spennandi að sjá hvernig þessi virðing endurspeglast í ákvörðun ráðherrans sem birta á síðdegis.
Föstudaginn 15. febrúar birtist hvatningin sem sjá má á myndinni í Morgunblaðinu. Er ég meðal þeirra sem rita undir hana enda þykir mér mjög miður að sjá aðfarirnar við Víkurgarð og skil ekkert í að leyft hafi verið að ganga fram á þennan veg. Þótti mér óskiljanlegt á sínum tíma að ríkið héldi ekki í húseign Landsímans sem var ekki til neins gagns fyrir þá sem keyptu fyrirtækið.
Sá tími er að baki og í dag ætlar Lilja
Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, að tilkynna hvort hún verður við
þessari hvatningu. Hún sagði um Víkurkirkjugarð í Silfri ríkissjónvarpsins sunnudaginn 17. febrúar:
„Þetta er einn helgasti staður landsins, það er enginn vafi um það í mínum huga.“
Í orðum ráðherrans felst mikil virðing fyrir því sem í hvatningu okkar segir. Verður spennandi að sjá hvernig þessi virðing endurspeglast í ákvörðun ráðherrans sem birta á síðdegis.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og stuðningsmenn hans eins og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og álitsgjafarnir Egill Helgason og Illugi Jökulsson leggjast gegn því sem í hvatningunni segir.
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur stjórnaði fjölmennum fundi þeirra sem að hvatningunni stóðu sem haldinn var í Iðnó laugardaginn 16. febrúar. Að kvöldi sunnudags 17. febrúar sagði hún frá málinu á FB-síðu sinni og hófust þar líflegar umræður með og á móti. Stóðu þær enn að morgni mánudags 18. febrúar en þá sagði Árni Snævarr sem starfar í Brussel á vegum Sameinuðu þjóðanna:
„Þetta [verndun Víkurkirkjugarðs] er eitthvað pínlegasta dæmi um gæluverkefni elítunnar sem engu máli skiptir. Fína fólkið í bænum. Vissi ekki nokkur maður af þessum garði, sem ævinlega hefur verið kallaður Fógetagarðurinn. Að ekki sé minnst á að Íslendingum hefur staðið slétt sama um grafreiti í áranna rás.“
Áður hafði Helga Kress, fyrrv. prófessor, sagt:
„Eitt er helgi staðurinn, grafreiturinn, sem ber að virða, annað og ekki síður mikilvægt er að borgstjórnin er að rústa miðbænum - og er reyndar komið langt með það.“
Í Fréttablaðinu segir að hagfræðingurinn Guðmundur Ólafsson hafi haft þetta um málið að segja: „Snobbhænur snobba á móti snobbhóteli.“ Við lestur orðanna rifjaðist upp fyrir mér hve glæsilegt var hjá Guðmundi að birta mynd af sér í kjólfötum á vefsíðu sinni.