21.12.2017 9:35

Til varnar málfrelsinu

Mesta pólitíska hættan af setu Trumps í forsetaembættinu er að mistök hans verði til þess að opna dyrnar fyrir álíka en andstæðum popúlisma sem birtist á mun ósvífnari hátt og kemur frá vinstri. – Niall Ferguson

Stundum nota ég síðuna Fjölmiðlanördar á Facebook til að vekja athygli á efni úr fjölmiðlum. Oft er þar um að ræða fréttaefni úr ríkisútvarpinu og kallar texti minn jafnan á skörp andsvör.

Gamalreyndur fjölmiðlamaður, Fjalar Sigurðarson, fer með ritstjórn Fjölmiðlanörda og í gær setti hann þar þennan texta:

„Gagnrýni Björns Bjarnasonar á fréttir RÚV er orðin kunnuglegt fyrirbæri. Og eins og næstum alltaf þegar BB leggur til atlögu við RÚV upphefjast flokkspólitískar þrætur í kjölfarið. Ég ætla að loka þessum skotgröfum, ekki vegna þess að skotgrafahernaður sé hundleiðinlegt og andlaust fyrirbæri í þjóðmálaumræðunni, (sem hann vissulega er) heldur einfaldlega vegna þess að umræðan snýst ekki lengur um fjölmiðla.“

Fjalar ræður efni á síðu sem hann stjórnar.

Á dögunum kallaði nafnlaus umsjónarmaður vefsíðunnar Fararheill mig „stríðsglæpamann“ hvorki meira né minna í tilefni orða sem ég lét falla hér á síðunni vegna verkfalls flugvirkja.

Nú er gerð aðför að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor í Háskóla Íslands og þess krafist að málfrelsi hans séu settar skorður.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, vill að ríkisendurskoðun (!) verði gerð að ritskoðanda vegna efnis sem birt er á netinu fyrir kosningar.

Til að minna á mikilvægi málfrelsis má benda á þetta:

Sagnfræðingurinn heimskunni Niall Ferguson ritaði grein í The Boston Globe 7. ágúst 2017 þar sem hann sagðist hafa fylgst með því hvernig Donald Trump forseti hefði orðið fótaskortur í opinberum umræðum á fyrstu mánuðum forsetaferils síns. Honum væru settar margvíslegar skorður og hann gæti ekki sagt allt sem honum dytti í hug átölulaust. Ekki þyrfti því að óttast harðstjórn með hann sem forseta.

Ferguson segir að mesta pólitíska hættan af setu Trumps í forsetaembættinu sé að mistök hans verði til þess að opna dyrnar fyrir álíka en andstæðum popúlisma sem birtist á mun ósvífnari hátt og komi frá vinstri. Ferguson segir að það megi kalla sig óforbetranlegan kalda-stríðs-mann en sér þyki tilhugsunin um þessa harðstjórn mun verri og auk þess sé hún líklegri en eitthvað í þessa veru frá Trump.

Bandarískir íhaldsmenn sýni með fáeinum undantekningum stjórnarskrá lands síns virðingu. Nútíma bandarískir vinstrisinnar þrái hins vegar að afnema mikilvægustu grundvallarréttindin sem stjórnarskráin verndi: málfrelsið. Vilji menn kynnast því hvar helst sé sótt að þessu frelsi nú á tímum í Bandaríkjunum skuli þeir að fylgja sér til stofnana þar sem ætla megi að málfrelsi sé helst í heiðri haft.

Síðan rifjar Ferguson upp fréttir um árásir á málfrelsi í bandarískum háskólum. Í febrúar 2017 aflýsti Kaliforníuháskóli, Berkeley, fundi með hægrisinnuðum breskum blaðamanni, Milo Yiannopoulos, eftir harðar mótmælaaðgerðir. Í mars 2017 gerðu námsmenn í Middlebury College í Vermont hróp að félagsfræðingnum Charles Murray og réðust á gestgjafa hans í hópi kennara. Í apríl var komið að íhaldssama rithöfundinum Heather MacDonald í Claremont McKenna og í Berkeley að blaðakonunni Ann Coulter sem styður Trump.

Ferguson segir að það sé ekki aðeins fólk vinstra megin við miðju sem eigi undir högg að sækja. Engum dytti í hug að kalla Richard Dawkins frá Oxford hægrimann. Það hafi hins vegar verið skrúfað fyrir hann í útvarpsstöð í Berkeley þegar hann ætlaði að ræða þar nýjustu bók sína. Talsmaður stöðvarinnar sagði að fallið hefði verið frá viðtalinu vegna þess að Dawkins hefði „sagt hluti sem ég veit að særa fólk“. Þarna var á misvísandi hátt vikið að hispurslausri gagnrýni trúleysingjans Dawkins á íslam. Útvarpsstjórinn sagði:„Við teljum það hluta af málfrelsi okkar að taka ekki þátt í samtali við neinn sem notar hatursfull og særandi orð gegn samfélagi fólks sem sætir nú þegar árásum.“

Ferguson vitnar til greinar sem Ulrich Baer, prófessor í samanburðarbókmennum við New York háskóla, skrifaði í The New York Times í apríl 2017 og sagði: „Málfrelsi felur ekki í sér takmarkalausa heimild til að segja allt sem okkur dettur í hug. Í því felst að finna jafnvægi milli eðlisbundins gildis ákveðinnar skoðunar og skyldunnar til að tryggja að aðrir innan ákveðins samfélags geti tekið þátt í umræðum sem að fullu viðurkenndir aðilar þessa samfélags.“

Baer sagði einnig: „Tjáningarfrelsi er ekki óumbreytanlegt. Það krefst vakandi og stöðugrar athugunar á ytri skilyrðum sínum.“

Ferguson er ósammála þessu. Hann segir tjáningarfrelsið víst óumbreytanlegt (absolutt) og sem talsmaður þess taki hann til máls í þessari grein til að verja til síðasta blóðdropa rétt Baers til láta þetta bull frá sér fara og til að skýra út fyrir eins mörgum og hann geti hvers vegna það sé svona hættulegt.

Hann segir að frelsi sé sjaldan afmáð af fólki sem hrópar: Niður með frelsið! Það sé afmáð af fólki sem fullyrði að öllum sé fyrir bestu/almannavilji krefjist/ samfélagið vilji/alþýðan heimti „rannsókn á ytri skilyrðum“ (eða eitthvað í þá áttina) einstaklingsfrelsis. Sé ritskoðun rökstudd með því að ekki megi særa tilfinningar neins, sé frjálst samfélag úr sögunni.

Undir lok greinar sinnar nefnir Niall Ferguson ástandið í Venesúela og í Sádí-Arabíu til að skýra mál sitt. Greininni lýkur á þessum orðum:

„Munið orð mín á meðan ég get enn sagt þau refsilaust: Þegar raunverulegir harðstjórar koma verður það í nafni fjölbreytileika (þó ekki skoðana) og gegn hatursorðræðu (þó ekki þeirra sjálfra).“