20.1.2019 10:12

Til varnar krónunni

Á sínum tíma bar hátt í yfirlýsingum forystumanna ASÍ að krónan væri skaðvaldur. Þessi boðskapur heyrist ekki lengur.

„Það er engu líkara en krónan sé eyðingarvopn sem öllu rústar í íslensku samfélagi. Það þurfi að koma henni fyrir kattarnef með því að ganga í ESB og taka upp evruna,“ segir Þorbjörn Guðjónsson, cand. oceon., í upphafi greinar í Morgunblaðinu mánudaginn 14. janúar.

Með þessum orðum vísar hann meðal annars til stefnu Viðreisnar en talsmenn þess flokks boða upptöku evru sem lausn á öllum vanda. Á sínum tíma bar hátt í yfirlýsingum forystumanna ASÍ að krónan væri skaðvaldur. Þessi boðskapur heyrist ekki lengur og setur ekki svip á kjaraviðræður líðandi stundar. Þaðan berast fréttir um að viðræðuefnið sé hefðbundnara: lengd vinnutíma, húsnæðismál, tekjujöfnuður og samanburður milli hópa launþega.

Þorbjörn segir:

„Gini-stuðull á Íslandi er lægri en í flestum löndum sem bendir til að hér sé tekjujöfnuður meiri en víðast annars staðar. Í evrópskum samanburði var Ísland með minnstan ójöfnuð árið 2016 með Gini-stuðul 24,1 en því næst komu Slóvakía með 24,3, þá Slóvenía 24,4, Noregur 25 og Tékkland 25,1. Ekki svo slæmt.“

953840Þá minnir Þorbjörn á að í ágúst 2018 var atvinnuleysi í ESB (28 þjóðir) 6,7% en 2,9 á Íslandi. Einnig þetta:

„Erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 439.349 milljarða í árslok 2000, eða mínus 61,2% af vergri landsframleiðslu, í árslok 2017 var erlend staða þjóðarbúsins jákvæð um 136.138 milljarða eða 5,2% af vergri landsframleiðslu. Þessi hagstæða þróun gerir það að verkum að þjóðarbúið er mun betur búið til að bregðast við hvers konar ölduróti. Ekki svo slæmt.“

Og loks skal þessi tilvitnun í grein Þorbjörns birt:

„Vísitala launa hækkaði um 237% frá júní 2000 til júní 2018, neysluvístalan hækkaði um 121%, á sama tíma hækkaði verð á dollara um 36,2% og verð á evru 69,2%. Af þessum tölum er erfitt að draga þá ályktun að krónan (gengi hennar) hafi verið hinn mikli skað- og hörmungavaldur í íslensku efnahagslífi og alla samfélagslega óáran megi rekja til hennar. Raunar er krónan ekki sjálfstætt afl í samhengi hlutanna, eingöngu mælir.“

Allt leiðir þetta til þeirrar niðurstöðu að í kjaraviðræðunum hafi menn í hendi sér að sigla áfram eftir þeim leiðarmerkjum sem hafa verið virt til að ná þeim góða árangri sem að ofan er getið. Með þennan árangur í huga er í raun óskiljanlegt að þeir hafi hljómgrunn hér sem vilja Ísland inn á evru-svæðið eða setja allt í uppnám með stéttastríði.