8.4.2018 10:43

Til varnar íslenskunni

Sýni menningarstofnanir íslenska ríkisins ekki meira aðhald og betra fordæmi en þarna er lýst þarf engan að undra að íslenska sé á undanhaldi þegar þjónustufyrirtækjum eru valin nöfn

Ævar Kjartansson útvarpsmaður og Pétur Gunnarsson rithöfundur hafa undanfarið haldið úti fróðlegum sunnudagsþáttum um íslenska tungu. Í morgun (8. apríl) ræddu þeir við Guðrúnu Kvaran, formann Íslenskrar málnefndar.

Ævar sagði frá því að hlustandi hefði hringt í sig og hvatt til þess að stjórnendur viðtalsþátta brýndu fyrir viðmælendum sínum að tala á íslensku. Þetta er rétt viðhorf.

Fyrr í þessum sama þætti var rætt um hlutverk málnefndarinnar og sagði Guðrún frá lögum frá 2011 sem gilda um íslenska tungu og störf málnefndarinnar. Þá spurði Pétur á þessa leið: Eru lögin ekki bara copy/paste á lögunum um frönsku akademíuna? Enginn staldraði við þessa enskuslettu í þættinum. Skyldi öllum orðið svona tamt að nota þessi ensku orð í stað góðu íslensku sagnarinnar að afrita?

Af orðum Guðrúnar mátti ráða að störf málnefndar minntu helst á starfsemi félítilla áhugamannafélaga þótt nefndarmenn fái laun fyrir bókaða fundi og njóti aðstoðar ritara úr starfsliði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg.

Telji nefndin tilefni til ábendingar semur Guðrún bréf heima hjá sér og sendir viðkomandi. Efni bréfsins er kynnt á vefsíðu málnefndarinnar og birt rauð lína í lok þess hafi ekki verið við bréfinu brugðist. Hún birtist aftast í þeim texta sem hér fer á eftir frá 2017:

„Íslenskri málnefnd barst athugasemd um að kaffistofa Listasafns Íslands hefði fengið heitið Mom‘s Secret Café. Formaður hafði samband við Halldór Runólfsson hjá Listasafni Íslands sem benti á að rekstur kaffistofunnar hefði verið boðinn út. Á heimasíðu safnsins eru upplýsingar um kaffistofu en þar kemur hvergi fram að annar aðili sjái um reksturinn. Formaður ritaði bréf til Listasafns Íslands 11. janúar  [2017] fyrir hönd Íslenskrar málnefndar þar sem bent var á að enskt nafn kaffistofunnar samræmdist á engan hátt stöðu safnsins sem eins af merkustu söfnum þjóðarinnar í flokki með Þjóðminjasafni Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Listasafn Íslands er þjóðlistasafn eins og stendur á heimasíðu safnsins, og fylgir því allnokkur ábyrgð. Nafnið samræmist á engan hátt lögum um stöðu íslenskrar tungu (nr. 61/2011) en í 1. gr. segir að íslenska sé þjóðtunga og opinbert mál á Íslandi og í 2. gr. að þjóðtungan sé sameiginlegt mál allra landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Jafnframt má benda á íslenska málstefnu. Listasafn Íslands ætti því hið fyrsta að velja nýtt nafn á kaffistofuna sem væri því til meiri sóma en það heiti sem nú er notað.“

Þegar þetta er ritað er ekki vitað hvort Listasafn Íslands hefur svarað bréfi málnefndarinnar.  Er því rauðu llínunni um það efni sleppt. Sé Google spurður svarar hann að kaffistofa með enska heitinu sé enn rekin í safninu.

Sýni menningarstofnanir íslenska ríkisins ekki meira aðhald og betra fordæmi en þarna er lýst þarf engan að undra að íslenska sé á undanhaldi þegar þjónustufyrirtækjum eru valin nöfn.

Fjölmiðlar segja samviskusamlega og stundum í hneykslunartón frá niðurstöðum mannanafnanefndar en ábendingar málnefndarinnar fara fyrir ofan garð og neðan hjá fjölmiðlamönnum. Hvað veldur?