7.9.2020 10:16

Til heimabrúks fyrir Erdogan

Eitt er víst: Erdogan hefði aldrei tekið á móti Róbert Spanó í höll sinni með pomp og pragt nema vegna þess að Tyrklandsforseti taldi það sér til heimabrúks ­– honum er sama um álit sitt út á við.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti stofnar til deilna við bandamenn sína auk hreinsana í eigin landi, mannréttindi eru fótum troðin.

Um miðjan október 2019 mótmælti ríkisstjórn Íslands innrás Tyrkja í Sýrland og 14. október 2019 fór Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fund utanríkismálanefndar alþingis og skýrði gagnrýnin sjónarmið sín fyrir nefndinni. Fundinum stjórnaði varaformaður hennar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. Eftir nefndarfundinn sagði á ruv.is:

„Getum beitt okkur enn betur

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður nefndarinnar, stýrði fundinum í dag. Hún sagði í samtali við fréttastofu að hún teldi að Íslendingar gætu beitt sér með enn skýrari hætti og benti á að Íslendingar sætu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fram að áramótum. Íslendingar gætu því beitt sér fyrir því að ráðið héldi sérstakan aukafund um innrás Tyrkja í Sýrland. Þá nefndi hún að í fríverslunarsamningi við Tyrkja væri ákvæði um að þeir virtu mannréttindi og því mætti skoða hvort beita mætti honum með einhverjum hætti.“

Enginn þurfti að efast um að varaformaðurin vildi að fastar yrði gengið fram gegn tyrkneskum stjórnvöldum. Rósa Björk er eindreginn andstæðingur aðildar Íslands að NATO. Hún sagði meðal annars á visir.is 24. október 2019 þegar alþingi samþykkti, þvert á vilja hennar, að Norður-Makedónía yrði 30. aðildarríki NATO:

„NATO er hernaðarbandalag en ekki krúttlegur friðarklúbbur.“

Rósa Björk er formaður íslensku þingmannanefndar Evrópuráðsins. Hún telur ráðið líklega „krúttlegan friðarklúbb“. Henni blöskrar að minnsta kosti ekki að forseti Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), meginvopns Evrópuráðsins, gangi á fund Erdogans og taki við nafnbót heiðursdoktors í Istanbul-háskóla fyrir utan annan heiður. Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. spyr í Morgunblaðinu í dag (7. september):

„Hvers vegna heldur Róbert Spanó [forseti MDE] að Tyrkir hafi viljað hengja á hann orðu? Dettur honum ekki í hug að það kunni að vera vegna viljans til að gera hann vinveittan þeim stjórnvöldum í þessu landi, sem sífellt þurfa að verja hendur sínar fyrir dómstólnum? Mun hann láta það eftir þeim?“

Þetta eru réttmætar spurningar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. utanríkisráðherra, sagði á Facebook 6. september; „Mér er nær að halda að það hafi verið fordild en ekki hefð sem réði því að Róbert Spanó þáði þessa vegtyllu.“

5f51cce9d7b42Róbert Spanó og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.

Eitt er víst: Erdogan hefði aldrei tekið á móti Róbert Spanó í höll sinni með pomp og pragt nema vegna þess að Tyrklandsforseti taldi það sér til heimabrúks ­– honum er sama um álit sitt út á við. Á heimavelli í Tyrklandi fá gagnrýnendur Erdogans vegna mannréttindabrota þau svör að forseti Mannréttindadómstóls Evrópu hafi gefið honum gæðastimpil í forsetahöllinni. Engar hátíðarræður breyta þessu.

Róbert Spanó kom til Tyrklands 3. september. Fáeinum dögum áður, 27. ágúst, andaðist kúrdíski lögfræðingurinn Ebru Timtik (42 ára) á sjúkrahúsi í Istanbul eftir sjö mánaða (238 daga) hungurverkfall í fangelsi. Hún var ásamt 17 öðrum lögfræðingum dæmd í mars 2019 fyrir tengsl við vinstrisinnuð, ólögleg hryðjuverkasamtök en taldi sig ekki njóta sanngjarnrar málsmeðferðar og hóf hungurverkfall.

Efast nokkur um að heimsókn forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Erdogans verði notuð til að réttlæta óhæfuverk í skjóli réttvísinnar?